138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[15:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hún er réttmæt hjá hv. formanni Framsóknarflokksins, sú gagnrýni sem hann hefur haft á það hvernig samskipti okkar við Breta og Hollendinga hafa tafið fyrir endurskoðun samstarfsáætlunarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En það er jafnóraunsætt að ætla að það sé ákjósanlegt fyrir Ísland í okkar stöðu að vinna sig út úr henni án samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hv. þingmaður hefur á stundum, jafnvel öðrum fremur dregið upp býsna skýra mynd af því hversu erfið staða okkar Íslendinga er í efnahagslegu tilliti. Hv. þingmaður hefur líka, stundum jafnvel svo mér hefur þótt nóg um, dregið fram hversu mikið skipbrot trúverðugleiki okkar á alþjóðlegum vettvangi hefur beðið og hvað okkar málstað hafi þar, að hans mati, verið haldið laklega fram. Þegar efnahagsleg staða okkar nú er erfið og trúverðugleiki okkar alþjóðlega lítill virðist algerlega augljóst að það að hafna samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er ekki svarið. Við hljótum við þær aðstæður að leita eftir samstarfi við alþjóðlega viðurkennda aðila með sérfræðiþekkingu sem geta í samstarfi við okkur skapað hér traust og trúverðugleika fyrir fjárfesta til að koma hér inn, fyrir aðila til að koma inn með lánsfé og fyrir ríkið til að lána okkur fjármagn. Við skulum muna að við fórum bónarveg land úr landi og fengum hvergi neina lánafyrirgreiðslu og að nær öll þau lánsfyrirheit sem við höfum nú fengið eru með því skilyrði að við eigum í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. (SDG: Það var ekki beðið um neitt annað.)

Þetta þýðir ekki að við eigum ekki að vera gagnrýnin á samstarfsáætlunina, á sjónarmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafa okkar eigin skoðanir og berjast fyrir breytingum og endurskoðun á áætluninni eftir því sem okkur þykja efni standa til. (VigH: Er verið að því?) Það er nú orðið býsna langt síðan sú áætlun var gerð og ýmsar skynsamlegar hugmyndir hafa verið settar fram um endurskoðun hennar, m.a. af hálfu seðlabankastjóra um það að við gætum hugsanlega dregið úr því lánsfé sem við sæktum eftir og þar fram eftir götunum. Það breytir því samt ekki að hrunið 6. október er ekki vondu fólki í útlöndum að kenna, það skópum við sjálf. Og við skulum muna að hluti af því hruni var að við einangruðumst alþjóðlega. Svarið við þeim vanda er ekki að einangra okkur, heldur þvert á móti að leita í ríkum mæli (Forseti hringir.) eftir alþjóðlegu samstarfi um að vinna okkur út úr vandanum.