138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[16:14]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Það er alveg augljóst að samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur valdið okkur Íslendingum miklum vonbrigðum, þá fyrst og fremst vegna þess hvernig Bretar og Hollendingar hafa beitt áhrifum sínum innan sjóðsins til að þrýsta á okkur í Icesave-málinu. Það er þó á hinn bóginn alveg ljóst að við Íslendingar þurfum á samstarfi við AGS að halda. Meginmarkmið samstarfsins er að efla traust á íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Með samstarfi við AGS fær íslenskt hagkerfi heilbrigðisvottorð og við það vottorð treysta erlendar þjóðir sér til að lána okkur fjármuni. Meira að segja okkar helstu vinaþjóðir hafa sagt: Kæru vinir, við treystum okkur ekki til að lána ykkur neina peninga nema það sé gert undir hatti AGS. Við það situr. Þingmenn eiga þess vegna ekki að standa í lýðskrumi og telja þjóðinni trú um að við getum byggt hér upp lífvænlegt samfélag án samstarfs við alþjóðasamfélagið.

Og ræðum aðeins alþjóðasamfélagið. Það var athyglisvert að heyra í frummælanda, formanni Framsóknarflokksins, því að hann er augljóslega ekkert sérstaklega spenntur fyrir þessu alþjóðasamfélagi og vildi sem minnst af því vita. Það er ágætt að hafa það á hreinu. Það er spurning hvort kjósendur Framsóknar sem starfa hjá Össuri, Actavis og Marel séu honum sammála, eða kannski þeir kjósendur Framsóknarflokksins sem vinna í innflutningi, útflutningi, ferðaþjónustu og jafnvel sjávarútvegi. (Gripið fram í.)

Ég spyr því þá þingmenn sem vilja halda þeim möguleika að þjóðinni að hún geti hætt samstarfi við AGS, hvernig þeir ætla að endurfjármagna erlendar skuldar sem þegar hefur verið stofnað til.

Opinberir aðilar þurfa að standa skil á þúsund milljörðum króna á næstu árum. (Gripið fram í.) Það þurfum við að borga í erlendri mynt. Hvernig ætla þingmenn að standa skil á þeim lánum? Vöruskiptajöfnuður okkar stendur ekki undir því nema menn ætli sér kannski að fella gengið.

Andstæðingar AGS þurfa að svara því hvernig þeir ætla að sækja erlent fjármagn til endurreisnar og endurfjármögnunar hér á þessu landi, hvernig þeir hinir sömu ætla að aflétta höftunum og lækka vexti — án þess að missa krónuna niður í dýpstu myrkur.

Því miður getur Ísland ekki fetað leiðina til endurreisnar án þess að gera það í samstarfi við alþjóðasamfélagið. Og það er gert í gegnum samstarfið við AGS.