138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[16:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það má skipta þessum málum, og lánamálum kannski aðallega, í tvennt; annars vegar eru það skuldir sem falla nú á ríkið og ýmsar stofnanir þjóðfélagsins vegna tjóns sem þegar er orðið. Undan þeim skuldum getum við ekki bara valið okkur með því að fara einhverjar aðrar leiðir. (Gripið fram í.) Skaðinn er skeður, tjónið er orðið. (SDG: … endurfjármögnun?) Að því leyti til er þung skuldabyrði þegar á fallin og þarf ekki flóknara dæmi en það að velta fyrir sér hvað 400 milljarða halli á ríkissjóði á tveimur árum þýðir. (Gripið fram í.) Hann þýðir skuldir sem því nemur og undan því verður ekki flúið. Þær eru þarna. (Gripið fram í.)

Varðandi gjaldeyrisforða er það auðvitað forði og ekki tapað fé. Það væri mjög merkilegt ef menn teldu núna að Ísland þyrfti á engum frekari vörnum og viðbúnaði að halda í þeim efnum en þeim þunna forða sem hefur verið í húsi síðan í fyrrahaust. (SDG: Lánsforði er ekki forði.) Munurinn er líka sá að gjaldeyrisforðinn er ávaxtaður, það er þá bara vaxtamunurinn sem þar leggst sem kostnaður á þjóðarbúið.

Að sjálfsögðu á að endurmeta og endurskoða þetta prógramm og það verður gert reglubundið. Og að sjálfsögðu er óþolandi hvernig endurskoðunin hefur tafist. (VigH: Ertu búinn að kvarta?) Að sjálfsögðu er margbúið að kvarta yfir því, hv. þingmenn. Á öllum fundum með yfirmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fundum mínum og utanríkisráðherra með Strauss-Kahn hefur að sjálfsögðu verið lýst megnustu óánægju með þetta. Það hefur verið sagt að svona geti þetta ekki gengið lengur. Allt frá því í júlímánuði þegar ég eyddi mörgum sólarhringum í (Gripið fram í.) að reyna að tryggja að endurskoðunin færi þá fram, viðurkennt að allt væri tilbúið af hálfu Íslands, en endurskoðunin fór engu að síður ekki fram. Þetta hefur grafið undan stuðningi við þátttökuna í þessu samstarfi og var þó aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eðlilega umdeild hér á sínum tíma og ýmsir sem lögðust gegn henni, reyndar ekki framsóknarmenn sem sátu hjá.

Verkefnið er að endurreisa íslenskan efnahag, koma hér aftur á eðlilegu ástandi, skapa forsendur fyrir stöðugu gengi, lækkun vaxta, lægri verðbólgu, eðlilegu umhverfi, eðlilegum aðgangi að alþjóðlegum lánamörkuðum þar sem allt er í frosti í dag. Við verðum að horfast í augu við það að það þarf að þjónusta erlendar skuldir ríkisins, fyrirtækja, sveitarfélaga, orkufyrirtækjanna o.s.frv. Það verður að undirbúa og sjá fyrir stórum gjalddögum sem þjóðarbúið þarf að mæta, sérstaklega á árunum 2011 og 2012. Menn verða að lifa í raunheiminum og horfast í augu við aðstæðurnar eins og þær eru. (Gripið fram í.)

Það var tekin sú ákvörðun að fara þessa leið hér í fyrravetur. Það væri hreint ábyrgðarleysi að (VigH: … gert.) taka einhverjar skyndiákvarðanir öðruvísi en að búið væri að tryggja varnir og stöðu landsins með fullnægjandi hætti á þá einhverjum öðrum forsendum. Þær leiðir hafa látið á sér standa (Gripið fram í.) og ég tel að (Gripið fram í.) það sé ósköp einfaldlega þannig að við eigum að reyna að fá þessa endurskoðun, (Forseti hringir.) þá styrkist staða okkar til verulegra muna og við verðum í betri færum til að endurmeta hlutina og velja okkur þá leiðir í framhaldinu.