138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[16:23]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um sérstakar aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja, vegna banka- og gjaldeyrishrunsins haustið 2008. Þetta frumvarp er óvenjulegt, bæði að efni og formi. Það er sett fram af fordæmislausu tilefni og markmið þess eru einstæð og áríðandi.

Ég vil hefja ræðu mína á því að geta þess hvað býr að baki frumvarpinu sem er hluti af stærra heildarátaki þar sem margir ólíkir aðilar hafa orðið að leggja hönd á plóg. Fyrst er rétt að þakka þá vinnu sem að baki þessu liggur, hún er afskaplega umfangsmikil og margir hafa komið þarna að. Á vegum ríkisstjórnarinnar hefur starfað ráðherranefnd þriggja ráðherra sem hefur haft veg og vanda af undirbúningi aðgerða vegna skuldavanda heimilanna, sem í hafa setið, auk mín, hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra. Því til viðbótar hefur þetta málefni margsinnis verið rætt í ríkisstjórn auðvitað á síðustu mánuðum.

Það er líka vert að þakka þeim fjölmörgu sem hafa komið að undirbúningi þessa máls. Við höfum þurft að eiga náið samstarf við lánastofnanir. Er vert að þakka sérstaklega forustumönnum Samtaka fjármálafyrirtækja fyrir þeirra góða starf og þá miklu sérfræðivinnu sem farið hefur fram á þeim vettvangi í samvinnu við okkur til að vinna grunninn að þeim lausnum sem hér er verið að leggja til.

Það er líka full ástæða til að þakka það samstarf sem við höfum átt við aðila vinnumarkaðarins. Það hefur verið mjög mikils virði í þessu efni. Við höfum líka haft samband við hagsmunasamtök önnur. Það hefur verið mikils virði að ræða við Hagsmunasamtök heimilanna, sem við höfum rætt við um þessar hugmyndir. Við höfum auðvitað haft samband við alla lífeyrissjóði o.s.frv. En síðast en ekki síst langar mig að gera að umtalsefni það góða samstarf sem við höfum átt við ýmsa stjórnarandstöðuþingmenn um vinnslu þessa máls og þegið frá þeim hugmyndir og ráð. Það hefur verið okkur mjög mikils virði í þessari vinnu að eiga þetta víðtæka samráð því að þetta er það flókið mál að um það verður ekki samið yfir eitt borð í einni svipan, heldur eru þetta í reynd mörg borð þar sem verið er að véla um þessi mál og það þarf að ræða um þau við marga aðila og það hefur verið mjög mikilvægt að eiga þetta víðtæka samráð.

Meginmarkmið þessa frumvarps eru að bregðast við þeim forsendubresti sem varð við hrun bankanna og gjaldmiðilsins, að koma jafnvægi á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindingar einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar, að dreifa áhættunni, þannig að sá skaði sem að mörgu leyti sem orsakaðist af útlánastefnu fjármálastofnana lendi ekki allur á lántakendum, heldur beri fjármálastofnanir einnig hallann. Að skapa úrræði og leiðir til þess að ná þessum markmiðum á sem skjótvirkastan hátt með samræmdum vinnubrögðum sem tryggja jafnræði þeirra sem þurfa úrræðanna með.

Öllum Íslendingum eru ljós þau djúpu sár sem hrun banka og gjaldmiðils hafa valdið. En um leið er hverjum manni ljóst að íslenskt samfélag getur aldrei staðið af sér stríð allra gegn öllum, heldur verður að leita samstöðu til endurreisnar. Eini möguleikinn til að hægt verði að greiða úr þessari flóknu stöðu og skapa tækifæri til að skipuleggja fjármál heimilanna skynsamlega að nýju, er að viðurkenna allar staðreyndir undanbragðalaust og endurreisa innviði lánamarkaða á nýjum grunni til framtíðar. (VigH: Heyr, heyr.)

Virðulegi forseti. Ég sagði að hér hefði orðið forsendubrestur og ætla nú að skýra með nokkrum orðum hvað ég á við.

Orðið forsendubrestur er oft nefnt í umræðum um greiðslu- og skuldavanda og þá sagt að efnahagshrunið hafi valdið honum, að gengi krónunnar hafi fallið miklu meira en fólk með skuldir í erlendum gjaldmiðli hefði getað séð fyrir. Þá hafi verðbólga í kjölfar gengisfallsins verið ófyrirséð og sömuleiðis fall eignaverðs. Allt er þetta satt og rétt og öll höfum við orðið fyrir tjóni vegna efnahagshrunsins. Á hitt ber að líta að við núverandi aðstæður er varhugavert að meta tjónið. Vonir standa til að á næstu árum rétti gengi krónunnar við með jákvæðum áhrifum á stöðu skuldara, gengistryggðra lána, og óbeint á flesta með leiðréttingu kaupmáttar og minni verðbólgu. Hagvöxtur á ný mun einnig stuðla að hækkun kaupmáttar og eignaverða þegar fram líða stundir. Mestu skiptir því að lækka greiðslubyrði lána nú til að sem flestir geti staðið í skilum. Það er gert með því að færa greiðslubyrði til þess sem hún var fyrir hrun. Það er líka ljóst að staða ákveðinna hluta lánþega er slík að þessar almennu aðgerðir duga ekki til. Því byggir frumvarpið líka á þeirri hugmyndafræði að sköpuð verði umgjörð fyrir samkomulag fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða um sértæka skuldaaðlögun sem er ætlað að leysa úr vanda þess hóps sem býr við það mikinn skuldavanda að almennu aðgerðirnar duga ekki. Markmiðið er að færa greiðslubyrði að greiðslugetu og búast má við að fjármálafyrirtæki og kröfuhafar þurfi í þeim tilvikum að gefa eftir hluta krafna sinna. Í þessum tilvikum ráðstafa þó fjármálafyrirtækin í raun hluta af þeim varúðarframlögum sem lögð hafa verið fram í kjölfar hrunsins.

Virðulegi forseti. Við vorum að ýmsu leyti komin í ógöngur fyrir hrunið vegna óábyrgrar hegðunar fjármálastofnana og okkar sjálfra í aðdraganda hrunsins. Lánamarkaðir fengu að þróast í fráleitar áttir, innrás bankanna á húsnæðislánamarkaðinn árið 2004 var misráðin og byggði ekki á viðskiptalegum forsendum. Hún fól í sér klassísk undirboð þar sem bankarnir buðu kjör sem þeir höfðu ekki efnahagslegar eða viðskiptalegar forsendur til að veita og ávísuðu þannig á framtíðina því misvægi sem þannig varð til milli þeirra lánskjara sem boðin voru og efnahagslegra möguleika bankanna til þess að standa við þau. Þetta leiddi síðan af sér eignabólu, eignaverðssprengingu, sem síðan hlaut að springa vegna þess að hún byggði ekki á neinum sjálfbærum forsendum.

Við hugsum til þess að mikilvægt er að reyna að girða fyrir að slíkar aðstæður verði aftur. Í því skyni er í 6. gr. frumvarpsins að finna heimildarákvæði fyrir Íbúðalánasjóð að hefja samstarf við fjármálastofnanir um fyrirkomulag fjármögnunar útlána þessara lánastofnana á markaði. Hugsunin er þá sú að samstarf geti tekist um að Íbúðalánasjóður greiði fyrir fjármögnun bankanna. Þetta hefur verið mikilvægt atriði í þeim samningum og því samráði sem átt hefur sér stað að undanförnu og miðar að því að tryggja bönkunum til lengri tíma traustan aðgang að lánsfé þannig að þeir geti veitt íbúðalán, en með sjálfbærum hætti í þetta skiptið þannig að tryggt sé að það sé þá byggt á kjörum sem raunverulega sé aflað á markaði áður en lánin eru veitt en ekki á einhverjum innstæðulausum bóluforsendum eins og hingað til hefur verið.

Virðulegi forseti. Veruleikinn sem við blasir felur í sér rökin fyrir mikilvægi þessara aðgerða. Í dag eru 19.765 einstaklingar á vanskilaskrá en þeir voru rúmlega 15.000 fyrir hrunið. Það segir líka sína sögu um það hversu ósjálfbær skuldsetning þjóðarinnar var orðin missirin fyrir hrun. Sjö þúsund einstaklingar stefna sjáanlega í verulega greiðsluerfiðleika á næstu mánuðum ef ekkert er að gert. Greiðslubyrði fólks á verðtryggðum lánum er núna 20% hærri en hún var í ársbyrjun 2008. Þetta er mun breytilegra hjá einstaklingum með gengistryggð lán en greiðslubyrði þeirra hefur hækkað mjög verulega. Allir landsmenn finna harkalega fyrir áhrifum hrunsins á eignastöðu sinni, aflafé, eða ráðstöfunarfé í mánuði hverjum.

Mikilvæg úrræði til að bregðast við vanda hinna verst settu tóku gildi sl. vor, þ.e. hin opinbera greiðsluaðlögun sem þá var komið á fót og tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðskulda. En vegna þess mikla fjölda sem mun þurfa að óbreyttu á sértækum úrræðum að halda er augljóst að þau úrræði munu ekki anna þörfinni. Meira þarf til svo brýnar lausnir fyrir fólk tefjist ekki vegna teppu í kerfinu.

Þegar við horfum á verkefnið fram undan er ljóst að ein meginforsenda fyrir efnahagslegri endurreisn, skilvirkni efnahagslegri endurreisn, er endurskipulagning skulda einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Seðlabankinn hefur greint hagsögulegar heimildir og skoðað reynslu annarra þjóða sem gengið hafa í gegnum viðlíka hrun. Niðurstaða Seðlabankans er sú að raunhæfustu og skynsamlegustu aðgerðirnar til endurskipulagningar felist í blandaðri leið. Í því felst að beita saman almennum aðgerðum og sértækum úrræðum. Hlutverk ríkisins er að ákveða almennu aðgerðirnar og útfæra þær en jafnframt tekur það að sér að setja ramma og leiða mótun nýrra leikreglna, nýs fjármálamarkaðar þar sem lánastofnunum og lánafyrirtækjum er falin aukin ábyrgð á áhættu og allt gert til að forða verulegum greiðsluvanda og greiðsluþroti. Það hefur verið leiðarljós okkar í þeirri vinnu sem átt hefur sér stað að undanförnu þar sem við höfum leitt saman þessa ólíku aðila og greitt fyrir samræmdum vinnubrögðum allra lánastofnana, hvort heldur það eru bankar, eignarleigufyrirtæki, lífeyrissjóðir eða Íbúðalánasjóður. Enginn hefur ávinning af gjaldþrotum en tjón vegna þeirra er mikið, það snertir samfélagið allt og getur skapað óbærilegan félagslegan vanda þegar fram í sækir.

Efni frumvarpsins sem hér er mælt fyrir er í reynd tvíþætt: Annars vegar felur það í sér tímabundinn ramma um þá sértæku skuldaaðlögun sem þarf að eiga sér stað í samningum skuldara og kröfuhafa. Hér er átt við einkaréttarlega samninga sem fram fara utan dómstóla. Hins vegar er mælt fyrir um breytingar sem gera þarf á lögum til að aðgerðirnar nái fram að ganga, breytingar á lögum um húsnæðismál og breytingar á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, sem byggist m.a. á samkomulagi sem náðst hefur við fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði um almennar aðgerðir til að létta greiðslubyrði og tryggja að lenging lánstíma vegna greiðslujöfnunar verði aldrei meiri en þrjú ár.

Með þeirri greiðslujöfnun sem hér er lagt upp með sem almennri aðgerð til að létta greiðslubyrði af húsnæðislánum og bílalánum, verður greiðslubyrðin færð aftur til þess sem hún var fyrir hrun. Greiðslubyrði af verðtryggðum lánum lækkar um u.þ.b. 20% og greiðslubyrði af gengistryggðum lánum lækkar almennt um 20–35%. Með því að setja þak á greiðslujöfnun lána er óvissu lántakendanna eytt þar sem þeir vita strax að lánið mun aldrei lengjast meira en um þrjú ár vegna greiðslujöfnunar. Þegar greiðslujöfnunartímabilinu lýkur verða eftirstöðvar af húsnæðislánum, ef einhverjar eru, afskrifaðar. Ef eftirstöðvar eru af bílalánum við lok greiðslujöfnunartímabilsins getur lántakinn annaðhvort greitt upp eftirstöðvarnar eða skilað bílnum og lokið þannig málinu. Samkvæmt frumvarpinu verður greiðslujöfnun sett sjálfkrafa á verðtryggð húsnæðislán. Þetta er gert til að tryggja öllum sem þurfa þetta úrræði aðgang að því. Þeir sem ekki vilja nýta sér það geta auðveldlega sagt sig frá greiðslujöfnun. Greiðslujöfnun varðandi gengistryggð lán mun verða komið á með samkomulagi, annars vegar við banka og hins vegar við eignarleigufyrirtækin sem hafa bílalán með höndum. Í þeim tilvikum munu skuldarar þurfa að velja sér greiðslujöfnun og geta gert það með einföldum hætti.

Ávinningur samfélagsins af þessari aðferð er mikil. Fjöldi fólks kemst hjá greiðsluvanda og getur áfram staðið í skilum. Ráðstöfunarfé fólks eykst. Og síðast en ekki síst, ótta fólks um að sitja uppi með lán út í hið óendanlega, er eytt. Það er líka ljóst að með þessari aðgerð er áhætta færð af lántakendum á lánastofnanir af frekari efnahagslegri óvissu í landinu. Áhætta af frekari gengisfellingu verður hér eftir á lánastofnanirnar en ekki á lántakendur. Lántakendur sem skulda í erlendum gjaldeyri geta áfram gert það óttalaust. Þeir njóta ávinningsins af styrkingu krónunnar en bera ekki áhættu af frekari veikingu hennar. Með sama hætti erum við að taka áhættuna af frekara verðbólgugosi af almenningi sem skuldar verðtryggð lán og setja hana yfir á lánastofnanirnar. Höfuðstóll mun vissulega hækka vegna hækkandi verðbólgu en greiðslubyrðin mun ekki aukast nema launaþróun gefi tilefni til þess. Það er þá forsenda þess að höfuðstóllinn verði greiddur að launaþróunin verði það rífleg umfram þróun verðlags að það verði í raun efnisleg rök til þess að hinn uppsafnaði höfuðstóll verði greiddur. Með þessu erum við að gefa fólki fyrirheit um afkomuöryggi á erfiðum tímum.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er að finna ákvæði í 2. og 3. gr. frumvarpsins sem leggja grunn að sértækri skuldaaðlögun. Með sértækri skuldaaðlögun er átt við tímabundna aðgerð. Frumvarpið setur útfærslunni ramma þar sem byggt er á að samkomulag fylgi í kjölfarið. Það liggur efnislega fyrir og verður undirritað á næstunni við aðildarfyrirtæki Samtaka fjármálafyrirtækja, Landssamband lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóð. Samkomulagið felur í sér samræmt verklag um meðferð erfiðra skuldamála utan dómstóla. Meginregla hinnar sértæku skuldaaðlögunar er að tekið verði á vanda hvers skuldara fyrir sig, hvort sem um er að ræða einstakling eða fyrirtæki. Að því er varðar einstaklinga mun sértæk skuldaaðlögun miðast við greiðslugetu viðkomandi skuldara. Eignir og skuldir eru aðlagaðar að greiðslugetu skuldarans og því er miðað við að stóreignir og bílaeign umfram hið nauðsynlega verði seldar eða leystar til lánastofnana. Eftirgjöf skulda eru sett þau viðmið að skuldir umfram 80–110% af veðrými fasteigna færist á biðreikning. Þegar skuldaaðlögunartímabilinu lýkur eru kröfur yfir þessum viðmiðum sem jafnframt eru umfram greiðslugetu afskrifaðar. Kröfuhöfum verður gert kleift að færa niður fjárskuldbindingar einstaklinga, fyrirtækja og heimila niður til raunvirðis þegar skuldir eru sannanlega glataðar án þess að niðurfellingin teljist til skattskylds eignaauka. Fyrir liggur í greinargerð með frumvarpinu sá skilningur skattyfirvalda og fjármálaráðuneytis að þetta verði ekki háð vandkvæðum miðað við túlkun laga um tekjuskatt.

Eftirlitsskyldum aðilum, einkum lánastofnunum, verður gert mögulegt að lækka höfuðstól krafna við afnám gengis- eða verðtryggingar þeirra, ef slík eftirgjöf byggist á mati á núvirði skuldar fyrir og eftir lánskjarabreytingu og breytingunni er ekki ætlað að rýra virði skuldarinnar. Með því greiðum við fyrir aðgerðum fjármálastofnana til þess að leysa skuldara úr ósjálfbærum erlendum lánastöðum og greiðum fyrir möguleikum lánastofnana að bjóða sjálfbærari innlend lánakjör í staðinn.

Frumvarpið felur þannig í sér meginreglur sem geta verið nýttar í atvinnulífinu til þess að lækka ósjálfbæra skuldastöðu í kjölfar efnahagslífsins og þar með greiðir það fyrir lausnum á skuldavanda fyrirtækja í landinu. Frumvarpið tekur til allra kröfuhafa sem skulu setja sér reglur um framkvæmd niðurfellinga og birta þær með aðgengilegum hætti. Aðilar sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins skulu setja sér reglur sem Fjármálaeftirlitið samþykkir í þessu efni. Með þessu er greitt fyrir að framkvæmd fjárhagslegrar endurskipulagningar í atvinnulífinu verði að mestu í höndum starfsmanna eftirlitsskyldra aðila, þ.e. starfsmanna fjármálastofnana. Þar er til staðar mannafli og þekking til að sinna þessu verkefni en hið opinbera setur framkvæmdinni ramma til að tryggja að jafnræðis sé gætt.

Til að hin sértæka skuldaaðlögun fyrir einstaklinga gangi upp eins vel og kostur er þarf líka að sníða agnúa af fyrirkomulagi opinberrar greiðsluaðlögunar. Af hálfu dómsmálaráðherra er nú unnið að tillögum sem munu væntanlega birtast hér á næstu vikum í frumvarpsformi og fela í sér viðbrögð við ýmsum agnúum sem komið hafa fram á þeirri löggjöf frá því að hún tók gildi síðasta vor. Það er mikilvægt að hún kallist á við þá sértæku skuldaaðlögun sem hér er kynnt þannig að skuldarar eigi í reynd samningsstöðu við kröfuhafa og eigi völ annarra úrræða í gegnum hið opinbera kerfi ef þeir samningar sem þeim standa til boða við kröfuhafa eru ekki ásættanlegir. Allt þarf þetta að kallast á. Við viljum að sem flest mál fari í gegnum sértæka skuldaaðlögun til þess að hlífa hinu opinbera kerfi við álagi en það þarf líka að vera ljóst hver réttur fólks er ef ekki eru í boði fullnægjandi lausnir í frjálsum samningum. Þegar öll þau úrræði sem hér eru lögð til í þessu frumvarpi hafa tekið gildi og virkni þeirra er orðin eins og að er stefnt, hefur að mínu viti verið stigið mjög stórt skref til endurskipulagningar skulda einstaklinga og fyrirtækja og lagður grunnur fyrir atvinnulífið að taka á málum í kjölfarið.

Virðulegi forseti. Í umræðu utan dagskrár nýverið kom fram einlægur ásetningur þingmanna úr öllum flokkum til að greiða fyrir þeim skrefum sem sammæli eru um að séu til góðs. Almennt var vel tekið í þær hugmyndir sem hér hefur verið lýst og eru nú lagðar fram í frumvarpsformi. Þetta met ég mikils og vil þakka fyrir það alveg sérstaklega því að eins og ég sagði í upphafi er enginn möguleiki að íslenskt samfélag geti staðið af sér stríð allra gegn öllum. Við verðum að leita samstöðu til efnahagslegrar endurreisnar. Í því skyni tel ég mikilvægt að við leitum allra leiða til að auka samvinnu þvert á flokksbönd um þetta mál á næstu mánuðum og missirum. Því tel ég rétt að óska eftir því við alla stjórnmálaflokka á Alþingi að þeir fallist á að við skipum sameiginlega nefnd, fulltrúa allra flokka, til að fylgjast með framvindu varðandi skuldamál heimila á næstu mánuðum og missirum og að þessi nefnd verði þá vettvangur til þess að við deilum með okkur upplýsingum um þróun mála og eigum samtöl um sjónarmið um frekari aðgerðir ef á þarf að halda.

Virðulegi forseti. Að síðustu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til félags- og tryggingamálanefndar.