138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[16:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir yfirferð hans á þessu frumvarpi. Ég tek sérstaklega fram að ég fagna frumvarpinu vegna þess að þetta er þó skref í rétta átt við að byrja að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem við erum í. Þótt ég sé reyndar ekki sáttur við allt sem í því er fagna ég því og það eru margir góðir punktar hér. Ég fagna líka sérstaklega því sem hæstv. ráðherra sagði í lokin að hann mundi beita sér fyrir því að skipa þverpólitískan hóp til þess einmitt að við komumst upp úr þessum hjólförum og förum að ræða þetta af viti. Okkur tókst það ekki í sumar þegar við báðum um að það yrði gert með þeim hætti en þetta veit á gott.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra um að þegar verið er að gera þessa hluti er verið að færa eignir frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana og það er gert í samráði við kröfuhafa. Við í þessum sal vitum mjög vel að það er búið að rétta af annars vegar fjármagnseigendur gagnvart innlánstryggingunum þegar þær voru tryggðar og eins gagnvart peningamarkaðssjóðunum. Þá langar mig að velta því upp hvort ekki hefði verið eðlilegra að þær kröfur eða íbúðalánin sem voru færð yfir á milli bankanna gengju beint til íbúðaeigendanna, þ.e. þeirra sem eru með lánið. Hefði það ekki verið skynsamlegra?

Eins langar mig í framhaldi af því að spyrja hann um það, vegna þess að ég hef reynt að leita mér upplýsinga um þetta víða og fengið mismunandi svör, hver í raun og veru færslan eða afföllin voru á þessum lánum á milli bankanna, þ.e. gömlu og nýju bankanna. Hver var niðurstaðan á milli kröfuhafanna sem eiga kröfurnar í gömlu bankana? Hver var í raun og veru niðurstaðan á því verðmæti sem var fært á milli og hvernig var það gert? Ég hefði áhuga á að hæstv. ráðherra svaraði þessu en að öðru leyti ítreka ég að ég fagna þessu frumvarpi.