138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[16:48]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð orð. Hann spyr hvernig staðið var að verðmati á þeim eignum sem færðar voru á milli gömlu og nýju bankanna. Eftir því sem ég kemst næst fór það fram með þeim hætti að reiknaðar voru væntar endurheimtur af lánunum. Ég hef ekki handbærar nákvæmar tölur um matið en matið er í sjálfu sér byggt á því að öll þau lán innheimtist sem greiðslugeta er fyrir. Vanda heimila er auðvitað mjög misskipt. Miðað við gögn Seðlabankans er staðan viðráðanleg hjá 80% heimilanna en 20% eru í mismiklum vanda. Það er hins vegar ekki alveg rétt hugsun að baki því að draga þá ályktun ef við gefum okkur að hér séu 20% í vanda — þó svo lán verði færð niður um 20% við yfirfærsluna er ekki beinlínis hægt að gefa þau 20% til allra heimila með 20% afslætti. Það er svipað og að leysa 10% atvinnuleysisvanda með því að láta alla fá 10% atvinnuleysisbætur. Eftir standa margir sem eru atvinnulausir og fá þá engar bætur. Stærðargráða vanda margra þeirra sem eru með mjög stór gengistryggð lán er slík að afskrifta þarf með. Bankarnir gera auðvitað ráð fyrir því að þeir ráðstafi því sem þeir hafa til ráðstöfunar í varúðarfærslur við meðferð erfiðra skuldamála í hinni sérstöku skuldaaðlögun sem ég gerði grein fyrir hér áðan og felur í sér samræmt verklag um hvernig hægt er að taka á lækkun skuldabyrði utan réttarkerfisins.