138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[16:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra. Svo við höfum þetta rétt þá var ein ástæðan fyrir eignabólunni að vísu lengi lóðaskortur hjá stærsta sveitarfélaginu Reykjavíkurborg. Yfirsýnin samkvæmt lögum á þó að vera hjá hæstv. félagsmálaráðherra. Ég spurði fyrirrennara hans, hv. þingmann og nú virðulegan forseta, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, í vor en það kom fram að því hefði ekki verið sinnt. Þvert á móti ef við skoðum t.d. ummæli núverandi hæstv. forsætisráðherra sem þá var félagsmálaráðherra, þá var það allt á hinn veginn en það er búið og við tökum það ekki aftur. Ég fagna viðbrögðum hæstv. ráðherra og lít svo á að hæstv. ráðherra, þótt hann hafi ekki verið viðstaddur umræðuna um efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna, ætli í fullri alvöru að skoða þau mál.

Við höfum áhyggjur af því að ef við förum núna í þessar aðgerðir og vonandi einhverjar fleiri verði þær til lítils ef við handjárnum fólkið með miklum skattahækkunum. (Forseti hringir.) Það er dæmi sem gengur ekki upp. Þetta verður allt að spila saman. Ég lít svo á að hæstv. ráðherra hafi verið að bjóða sáttarhönd og að hann sé opinn fyrir að (Forseti hringir.) fara yfir þetta mál.