138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans og tek undir að þetta lagafrumvarp er skref í rétta átt. Ég legg áherslu á orðið „skref“ því mér finnst enn töluvert vanta upp á að þetta sé fullnægjandi. Það skiptir ekki síður miklu að höfuðstóll þeirra lána sem hér er um að ræða verði lækkaður því ég ef skil þetta frumvarp rétt og þær athugasemdir sem hér koma fram er tímabundið verið að létta greiðslubyrði þeirra sem eiga þessi lán en þau safnast hins vegar upp. Af því tilefni langar mig að vitna í skýringu með 5. gr. frumvarpsins. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Það er mat fjármálafyrirtækja að ólíklegt sé að eitthvað standi eftir af lánum í lok lánstímans þrátt fyrir greiðslujöfnun að gefnum varfærnum forsendum um þróun kaupmáttar og atvinnustigs.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta þýði ekki í raun að gert sé ráð fyrir að allt sé borgað í topp.

Einnig langar mig að spyrja hvort tekin hafi verið inn í myndina þegar var verið að ræða og fara yfir þessar leiðir sú mikla raunupptaka eigna eða hvað það kallast sem orðið hefur hjá landsmönnum við lækkun fasteignaverðs. Er það tekið með í reikninginn?

Í þriðja lagi — ég reikna með að ráðherra heyri þetta allt saman — þá er það spurning hvort sú aðferðafræði sem nú er notuð hafi verið notuð áður, þ.e. hvort þetta sé sama aðferðafræði og var notuð árið 1983 eftir svokallaða kollsteypu. Ef þar er munur á, hver er hann? Ég ætla að geyma eina spurninguna.