138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:27]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að það er í sjálfu sér ekki markmið opinberra afskipta af skuldavanda að greiða fyrir lausnum á bílamálunum eins og þau liggja fyrir. Við hugleiddum það einmitt mikið hvort við ættum yfir höfuð að fara í það mál en hins vegar, eins og hv. þm. bendir réttilega á, eru skuldir vegna bílakaupa svo stór hluti af ráðstöfunartekjum margra fjölskyldna að það var eiginlega ómögulegt annað en horfa á þetta í samhengi. Þess vegna var lögðum við áherslu á að lengja í þeim lánum, skapa forsendur fyrir því að létta greiðslubyrðina, lengja í lánunum. Og þegar þriggja ára lánstímanum lýkur fellur sjálfskuldarábyrgðin niður þannig að fólk öðlast þá ákveðið frelsi út úr þessum bílalánum og fær möguleika á að standa betur í skilum.

Það sem við erum alveg sammála um, hv. þingmaður og ég, er að það er mikilvægt að við gætum þess að taka ekki ávinninginn af þeim aðgerðum, sem nú eru fyrirætlaðar, til baka í formi skattahækkana. Þess vegna þurfum við auðvitað að horfa á alla skattstofna með opnum huga. Við þurfum, alveg eins og ég sagði áðan, að ræða opið og fordómalaust um kosti og galla á hugmyndum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett fram á skattlagningu lífeyrisinngreiðslna.

Við þurfum líka að horfa á alla aðra skatta. Við þurfum að horfa alveg opið á það hvaða önnur gjöld er hægt að leggja á sem leggjast jafnt á heimilin og fyrirtækin, eins og t.d. orku- og kolefnisskatta. Ég held að við eigum einfaldlega að reyna sem kostur er að hlífa því fólki sem þarf að bera þyngstu byrðarnar í þessari kreppu, sem er barnafólk með meðaltekjur, það er reynsla nágrannaríkja okkar að það er mest hætta á því í kreppu að fólk gleymi nákvæmlega þeim þjóðfélagshópi. Það er reynslan frá Svíþjóð og Finnlandi að lagðar voru of miklar byrðar á þann hóp.