138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Menn hafa þakkað svo mikið og fagnað hér í ræðustól að það liggur við að maður láti hjá líða að þakka og fagna svo hæstv. ráðherra ofmetnist ekki. Þetta er orðið eins konar þakkargjörðarhátíð. Þar að auki er ég búinn að þakka og fagna í utandagskrárumræðu hérna um daginn, búinn að fagna þessu sem fyrsta skrefi í átt til þess að endurskipuleggja skuldir heimilanna og takast á við þetta ógnarstóra verkefni. Ég hef þakkað hæstv. ráðherra fyrir að hafa sýnt samráð og fagna því þá, í áframhaldi núna, að hann ætli að setja á stofn þverpólitíska nefnd eins og það kallast til að halda áfram að fara yfir málin. En nú ætla ég að freista þess að nota restina af ræðu minni, sem eru sléttar 14 mínútur á þessari stundu, til að ná hæstv. ráðherra aðeins niður á jörðina og fara í gagnrýnisgallann, ekki veitir af því, vegna þess að verkefnið er ógnarstórt.

Ýmsar spurningar vakna við lestur frumvarpsins eins og það birtist okkur núna og ýmis úrlausnarefni blasa við sem þarf að ganga í og er ekki tekið á í frumvarpinu.

Svo byrjað sé á byrjuninni, og er náttúrlega búið að fara yfir það margoft, varð svokallaður forsendubrestur í íslensku samfélagi fyrir ári. Forsendubresturinn lýsti sér í því að allir sem skulda tóku á sig högg. Allir. Þeir tóku að vísu á sig mismikið högg eftir því hvort þeir voru með verðtryggð lán eða gengistryggð lán. En það var í sjálfu sér almenn aðgerð að allir íslenskir skuldarar tóku á sig hækkun höfuðstóls. Þetta er ein grunnforsenda þess að margir hafa talað fyrir því að fara verði í almennar aðgerðir á lánamarkaði til að takast á við þetta. Fyrst allir tóku á sig högg gengur ekki að miða aðgerðirnar á lánamarkaði við það að hjálpa bara sumum. Þetta eru sanngirnisrökin á bak við það að fara í almennar aðgerðir. Ég hef fagnað því og get svo sem fagnað því aftur að hæstv. ráðherra virðist hafa áttað sig á því og boðar núna almennar aðgerðir til að létta greiðslubyrðina. En betur má ef duga skal í þessu efni.

Aðgerðir hæstv. ráðherra skiptast í almennar aðgerðir og sértækar aðgerðir. Ég held og við framsóknarmenn höfum haldið því fram um dálítið skeið að nauðsyn minnki á sértækum aðgerðum eftir því sem við förum af meiri röggsemi í almennar aðgerðir. Ég held líka að sértæku aðgerðirnar verði sanngjarnari eftir því sem við förum af meiri röggsemi í almennu aðgerðirnar. Vegna þess að ástandið í samfélaginu er náttúrlega þannig að fleiri kalla á aðgerðir en bara þeir sem eru í verulegum vandræðum. Þeir sem eru í smávandræðum kalla líka á aðgerðir, eða fólk sem þarf að vinna myrkranna á milli til að vera kannski ekki í vandræðum, ef þið skiljið hvað ég á við. Það er verulega stór hópur fólks sem kannski skrimtir og fellur ekki undir þær skilgreiningar að eiga skilið sértækar aðgerðir, en kallar samt á aðgerðir. Ég held að við verðum að mæta þeim hópi. Ég held við verðum jafnframt að horfast í augu við það, sem að hluta til er gert í frumvarpinu, að almenn aðgerð er efnahagsleg aðgerð líka. Á þeim tímum sem við aukum byrðar á heimilin í landinu og fyrirtækin líka með alls konar aðgerðum út af bágu ástandi í ríkisfjármálum verðum við að fara í það verkefni af mikilli andagift að létta byrðarnar. Við framsóknarmenn höfum haldið því fram að við getum gert það í gegnum alls konar aðgerðir á lánamarkaði. Ég held að það þokist í rétta átt hvað það varðar í frumvarpinu.

Meginhugsunin í frumvarpinu er þó, eins og ég met það, að farið skuli í tilvik eftir tilvik, að meta skuli hvert einasta tilvik og meta hvort farið skuli í afskriftir hjá viðkomandi heimili eða ekki, hvort stofnaðir verði biðreikningar eða ekki og þar fram eftir götunum. Lagafrumvarpið sem slíkt gefur engar vísbendingar um hvað á að liggja þessu til grundvallar eða hvaða skilyrði fólk þarf að uppfylla til að fá afskriftir. Það er ekki í frumvarpinu. Frumvarpið segir í raun að lánastofnanir eigi að mynda sér þær reglur. Ég set spurningarmerki við það vegna þess að ég held að það sé mjög vandmeðfarið pólitískt viðfangsefni í samfélaginu í dag að ákveða t.d. hverjir eigi að fá afskriftir af skuldum sínum og hverjir ekki. Það geta verið mjög margar erfiðar spurningar sem vakna í þessu. Ef t.d. er bara miðað við greiðslugetu er náttúrlega augljóst að við sköpum mögulega neikvæðan hvata í hagkerfinu, að núna tímabundið mun fólk sem er í slæmri stöðu ekki reyna að vinna sig út úr henni samkvæmt eigin verðleikum í trausti þess að ef greiðslugetan er lítil fái það verulegar afskriftir af skuldum sínum. Það er náttúrlega mjög slæmt ef það gerist. Við verðum að finna einhverjar leiðir til að umbuna þeim sem vilja líka í krafti eigin dugnaðar reyna að koma sér út úr þessu svo þeir lendi ekki í einhvers konar gildru með neikvæða eiginfjárstöðu.

Hvernig tryggjum við að jafnræðis verði gætt við afskriftir skulda? Í frumvarpinu er þessu nánast eingöngu velt yfir á Fjármálaeftirlitið. Nú er það svo að í þjóðfélagi þar sem margar stofnanir njóta lítils trausts, þá held ég að Fjármálaeftirlitið njóti einna minnsts trausts eftir það sem á undan er gengið. Ég hlýt því að varpa þeirri spurningu fram til hæstv. ráðherra hvort það standi þá til að efla Fjármálaeftirlitið á einhvern hátt, vegna þess að þetta er ærið verkefni í öllum þeim sértæku aðgerðum sem kunna að skipta þúsundum, ef Fjármálaeftirlitið á að gæta þess að jafnræði sé tryggt. Hvernig Fjármálaeftirlitið á að gera það er náttúrlega spurningin sem blasir við.

Svo er líka ýmislegt varðandi sértæku aðgerðirnar sem ég held að pólitíkusar verði að taka afstöðu til, eins og t.d. hvað eigi að gera í lóðalánum. Fólk hefur skuldsett sig í lóðakaupum en það eru annars konar lán. Það eru lán sem eru til skamms tíma og stórir greiðsludagar koma eftir frekar stuttan lánstíma og fólk situr uppi með slíkar lóðir en getur ekki byggt vegna gjörbreytingar á markaði. Stendur til að taka á þessu sérstaklega? Hvað á að gera í málefnum ungs fólks sem er með veð í húsnæði foreldra sinna? Svo dæmi sé tekið. Þetta þurfum við að sjá og ég vona að fjallað verði um þetta í nefndinni.

Ég held eins og ég sagði áðan að eftir því sem við förum af meiri röggsemi í almennar aðgerðir muni meiri sátt skapast um hinar sértæku. Ef við sköpum þannig andrúmsloft í þjóðfélaginu að í kjölfar efnahagshrunsins muni sem flestir finna á eigin skinni að verið sé að koma til móts við forsendubrest þeirra muni sáttin um hinar sértæku aðgerðir, að sumir fái meiri afskriftir en aðrir, verða meiri, ef þið skiljið hvað ég á við.

Ég verð svolítið ringlaður þegar ég les frumvarpið. Ég hef staðið í þeirri meiningu, og sérstaklega eftir samráðið sem ég hef fagnað og við í Framsóknarflokknum höfum átt við hæstv. ráðherra, að til stæði að fara í víðtækari almennar aðgerðir heldur en ráð er fyrir gert í frumvarpinu. Að til stæði að næsta skref á lánamarkaði væri að fara t.d. í almenna niðurskrift á höfuðstól. Þess vegna kemur mér spánskt fyrir sjónir að í greinargerðinni er lögð satt að segja talsverð áhersla á að flöt niðurfelling skulda upp að einhverju marki komi ekki til greina. Ég set spurningarmerki við þetta. Af hverju kemur hún ekki til greina? Af hverju skyldi ekki stjórnvaldið vera opið fyrir því að ef aðstæður sköpuðust á íslenskum lánamarkaði væri hægt að fara í flatar afskriftir? Af hverju skyldum við ekki gera það? Ég held að það væri góð efnahagsleg aðgerð. Eins og ég hef rakið áður er hún sanngjörn vegna þess að höggið í kjölfar forsendubrestsins kom jafnt á alla skuldara. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir að þetta sé beinlínis útilokað.

Einnig kemur mér spánskt fyrir sjónir að í frumvarpinu er gert ráð fyrir almennum aðgerðum sem fela í sér almenna mögulega afskrift, þ.e. þriggja ára hámark á aukningu lánstíma. Þetta er þak á biðreikningi, þetta er þak á því hvað lántakendur þurfa að greiða lán sitt lengi. Vonandi sjá allir hversu mikilvægt skref þetta er vegna þess að þarna eru lánveitendur að fallast á að þeir muni taka einhverja áhættu, þeir muni mögulega þurfa að afskrifa lánin. Og ef forsendur verða þannig í samfélaginu að við gerum ráð fyrir að lántakendur geti ekki greitt allan höfuðstólinn og afskriftir verði í lok lánstímans, þá finnst mér mjög eðlilegt að lánastofnanirnar íhugi núna að veita þessar afskriftir í dag. Ég skil ekki af hverju hæstv. ráðherra ætti að vera eitthvað sérstaklega á móti því. Það er sem sagt opnað fyrir almennar afskriftir í frumvarpinu, en greinargerðin mælir síðan á móti almennum afskriftum. Þetta er þversögn. Ég geri ráð fyrir að þessi þversögn verði rædd í nefndinni og við fáum einhverjar útskýringar á henni.

Svo er hið almenna úrræði sem felst í því að tengja við svokallaða greiðslujöfnunarvísitölu. Þetta er gott núna. Þetta færir greiðslubyrði lánanna niður núna, en ég held að óhætt sé að segja að þetta er afleitt til langs tíma. Segjum sem svo að við komumst hratt upp úr kreppunni og atvinnustigið aukist hratt og kaupmáttur aukist líka hratt. Þess eru fordæmi og rík fordæmi að ríki fari fljótt upp úr kreppu og við skulum vona að það gerist hér. En við erum þá búin að beintengja afborganir af lánum við hækkandi kaupmátt. Þá er viðbúið að heyrist hljóð úr horni og að margir lántakendur líti svo á að þeir hafi hreinlega verið leiddir í gildru. Við verðum því að hafa eitthvert plan í huga til að aftengja þetta og koma í veg fyrir að slíkt gerist, þó að þetta sé ágæt aðgerð eins og er.

Í versta falli getur það sem sagt gerst ef við tökum ekki hnitmiðuð næstu skref, að ef við förum bara í sértækar aðgerðir gæti það valdið ósætti í samfélaginu vegna þess að fólk upplifði ekki sanngjarnan greinarmun á þeim sem fengju afskriftir og hinum sem fengju ekki afskriftir. Verulegt ósætti yrði út af þessu og því að menn upplifðu ekki skýrt hver greinarmunur væri á hóflegu húsnæði og óhóflegu, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson rakti áðan, og þar fram eftir götunum. Og að hinir sem fengju ekki sértækar aðgerðir, fengju ekki sértæka niðurfellingu skulda, upplifi sig í áðurnefndri gildru, að þeir hafi fengið lækkun tímabundið á greiðslubyrði en um leið og laun hækkuðu, um leið og ástandið batnaði, hækkaði greiðslubyrðin til muna. Þetta megum við ekki láta gerast í íslensku samfélagi. Þess vegna verðum við að taka næstu skref.

Ég held að næstu skrefin verði að felast í því að við förum í almenna leiðréttingu á höfuðstól skulda núna og nýtum okkur þau skref sem þó eru stigin í frumvarpinu til þess að gera það. Það getum við t.d. gert með skuldbreytingu á lánunum yfir í óverðtryggð lán. Við getum boðið lántakendum að fá niðurfellingu á höfuðstól gegn því að fara yfir í óverðtryggð lán þegar vextir á Íslandi eru orðnir skaplegir, við skulum vona að þeir verði skaplegir innan tíðar. Þá felst jafnframt í því það pólitíska markmið að koma á fót á Íslandi lánamarkaði sem er til muna heilbrigðari en sá sem við búum við núna, óverðtryggður, á skaplegum vöxtum.

Mér finnst gæta ákveðinnar neikvæðni til þessa markmiðs í greinargerð frumvarpsins vegna þess að þar segir að gera eigi lánastofnunum kleift að lækka höfuðstól krafna við afnám gengis eða verðtryggingar eins og ég er að tala um, opnað er fyrir svona skuldbreytingu en hún verður að byggjast á því að það rýri ekki virði skuldarinnar. Af hverju? Af hverju mega lánastofnanir ekki fara í þá aðgerð þó svo það rýri virði skuldarinnar? Er hún komin hérna kristaltær skjaldborgin um skuldirnar, hin svokallaða, sem menn hafa svona stundum vænt ríkisstjórnina um að slá upp? Mér finnst að þetta þurfi að endurskoða.

Mér finnst að við þurfum að opna alveg skýrt fyrir það að lánastofnanir geti núna sem næsta skref þegar vextir verða skaplegir farið í skuldbreytingu á lánunum með lækkun höfuðstóls, almennri, og yfir í óverðtryggt kerfi. Við eigum að setja okkur það pólitíska markmið og ég mundi fagna því ef það yrði niðurstaða þessarar umræðu, að eftir þrjú ár eða svo byggjum við við (Forseti hringir.) sanngjarnan, leiðréttan lánamarkað að norrænni fyrirmynd.