138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:44]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hann rakti mörg atriði sem rétt er að verði fjallað betur um í nefndinni. Í fyrsta lagi nefndi hv. þingmaður hvað það væri mikilvægt að grípa til almennra aðgerða vegna þess að margir ættu í smávandræðum og það væri mikilvægt að taka á því. Það er auðvitað markmið þessara aðgerða, að greiða fyrir því að fólk sem getur í sjálfu sér staðið í skilum en þó með ærinni fyrirhöfn fái ákveðna aðstoð við það frá hinu opinbera með þessari breytingu. Fólk eigi þannig auðveldara með að standa í skilum.

Hv. þingmaður rakti líka hættur sem fælust í því að ekki væri tryggt nauðsynlegt gagnsæi um það hverjir fengju afskriftir og hvernig í hinni sértæku skuldaaðlögun. Í samkomulagi sem liggur fyrir í drögum og verður undirritað síðar í vikunni er gert ráð fyrir því að aðilar samningsins, sem eru fjármálastofnanirnar, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir, skuldbindi sig til að fylgja vönduðum vinnubrögðum, virða jafnræði í framkvæmd, heiðarlega upplýsingagjöf og að umsjónaraðili sem verði þá væntanlega aðalviðskiptabanki viðkomandi skuldara varðveiti gögn og skrái allan feril málsins þannig að hægt verði að endurrýna það ef ástæða er til.

Aðeins að því er varðar lækkun höfuðstóls. Í frumvarpinu er greitt mjög fyrir umbreytingu á skuldum. Það er mjög einfalt að verða við því sem hv. þingmaður hefur kallað eftir, sem er að auðvelda skuldbreytingar úr verðtryggðum skuldum yfir í óverðtryggðar eða úr gengistryggðum yfir í hvort heldur er verðtryggt eða óverðtryggt og lækkar þar með höfuðstól en það felur alltaf í sér núvirðingu. Í sjálfu sér er ástæðunni líka lýst í greinargerð fyrir því af hverju ekki er hægt að ganga lengra. Eftirgjöf er skattskyld sem örlætisgerningur (Forseti hringir.) ef hún felur í sér eftirgjöf skulda að einhverju leyti.