138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi hina almennu niðurfellingu skulda. Ég er ósammála hæstv. ráðherra um að það sé sérstök ástæða til að bíða með það vegna þess að ég held að öllum sé ljóst að þessi skaði er skeður. Eins og ég rakti áðan í ræðu minni hækkaði höfuðstóll skulda einfaldlega óeðlilega mikið í hruninu sem varð fyrir ári síðan. Það blasir við. Mér finnst það vera verkefni íslenskra stjórnmála að reyna að leiðrétta þetta. Okkur eru færð ákveðin tól í hendurnar í þessu frumvarpi sem við ræðum hérna og ég skil þess vegna ekki af hverju tónninn í greinargerðinni er neikvæður í garð almennrar niðurfellingar á skuldum þegar hugsunin í frumvarpinu sjálfu gerir ráð fyrir að það geti vel verið næsta skref á lánamarkaði að fara í almenna launaréttingu á skuldum. Ég ætla að fara yfir þetta einu sinni enn.

Boðuð er almenn aðgerð sem er þriggja ára þak á lengingu lána. Sú aðgerð getur mjög mögulega falið í sér á endanum almenna leiðréttingu á skuldum og íslensku lánastofnanirnar eru búnar að viðurkenna að það geti vel komið til. Hugsunin er komin þarna inn. Næsta skref væri þá að fara í þessar afskriftir núna, það þarf að gerast núna vegna þess að forsendubresturinn varð núna.

Einnig er opnað fyrir að fara í skuldbreytingar sem fela í sér lækkun höfuðstóls og færslu yfir í mun heilbrigðari lánamarkað, óverðtryggðan. Ég ítreka að mér finnst það skynsamlegt næsta skref og við ættum að einhenda okkur í það. Þá mundi ég fagna enn og aftur.