138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:53]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er að sönnu eitt af mikilvægustu stjórnarfrumvörpum þessa vetrar fram komið, mál sem unnið hefur verið að hörðum höndum á síðustu mánuðum, síðasta missiri, og er óhætt að segja að það sé eitt af þremur, fjórum mikilvægustu málum ríkisstjórnarinnar sem lúta að því að endurreisa aftur stöðu í íslensku samfélagi. Ég er á þeirri skoðun að afskaplega vel hafi verið að verki staðið og frumvarpið sem hæstv. félagsmálaráðherra leggur fram og mælir fyrir í dag sé umtalsvert pólitískt afrek af því að um er að ræða eitt af flóknustu og erfiðustu úrlausnarefnunum af þeim öllum.

Hægt er að nálgast málið út frá mörgum hliðum. Ræða hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar var prýðileg. Hann rakti ýmislegt sem benda má á og finna að, skoða þurfi betur og jafnvel síðar.

Við höfum rætt það allt síðasta ár hvort fara eigi í almenna niðurfærslu fyrir fram á öllum höfuðstólum, hvað það mundi kosta lífeyrissjóði, fjármálafyrirtækin, Íbúðalánasjóð, íslenska ríkið o.s.frv. Það er leið sem að sjálfsögðu hefur alltaf komið til greina en aftur á móti er spurningin sem eftir stendur sú: Hvað kostar það samfélagið annars vegar og hins vegar hvað kemur að bestum notum? Af því að þetta snýst ekki bara um að endurreisa efnahagslífið og bæta stöðu heimila og fyrirtækja, þetta snýst nefnilega að svo miklu leyti um réttlæti. Þetta snýst um að leiðrétta forsendubrest sem átti sér stað og brotnar sérstaklega harkalega á þeim hópi fólks sem kaupir sér fasteignir á árabilinu 2004–2007 í háþenslu á fasteignamarkaði sem á sér engin fordæmi. Það hafði í för með sér að fasteignaverð á Íslandi hækkaði um allt að því 100% á ákveðnum svæðum þar sem 75% þjóðarinnar býr, á suðvesturhorninu og í kraganum. Það varð gríðarleg hækkun á fasteignaverði. Fólk, sérstaklega sú kynslóð sem keypti sér húsnæði, fyrsta húsnæðið, stærra húsnæði yfir ört vaxandi fjölskyldu, keypti í bólunni, keypti í háþenslunni, mun aldrei nokkurn tíma fá sjálfkrafa leiðréttingu á því sem átti sér stað. Það keypti í háþenslunni, lendir í hruni sem orsakar það að erlendir gjaldmiðlar, þ.e. hrun krónunnar markaði það að erlendir gjaldmiðlar kosta 100% meira en þeir kostuðu fyrir ári. Það eru náttúrlega svo fordæmislausar aðstæður fyrir þá sem voru að versla, hvort sem það voru bílar eða húsnæði á þeim tíma, að það verður og á að bregðast við því.

Fyrir hina er 25% hækkun á höfuðstól verðtryggðra lána gífurlega mikil hækkun. Við höfum leitað aldarfjórðung aftur í söguna til viðlíks misgengis sem snertir samt miklu færri. Það snertir að ég held innan við 5% skuldara en var þó mjög alvarlegt mál og olli miklum deilum. Við þekkjum sögu Sigtúnshóps og úrræðanna sem að lokum var gripið til og við höfum lært þá sögu.

Þegar ég les þetta mál af gaumgæfni yfir er það mín skoðun og ég meina það alveg innilega að hér sé um að ræða, eins og ég sagði áðan, talsvert pólitískt afrek af því að það er mjög vandmeðfarið hvernig við leggjum til úrlausnir, a.m.k. tímabundið og svo má hugsanlega ganga lengra eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi áðan.

Ég tek alveg undir það í greinargerð að engin ástæða er til þess að útiloka eða slá út af borðinu niðurfærsluna eða eins og hér stendur, með leyfi forseta:

„Flöt eftirgjöf skulda mundi grafa undan efnahag nýju bankanna …“. Og því er fundið ýmislegt til foráttu því að auðvitað er það partur af leiðinni. Við erum umfram allt að ná jafnvægi á milli eigna og skulda. Það er verkefnið. Það held ég að takist vel hér.

Í fyrsta lagi finna allir fyrir þessu strax. Það hefur töluverð efnahagsleg áhrif, ráðstöfunarfé fólks eykst og rými til að standa í skilum með hinni almennu greiðslujöfnun. Það var mjög hyggileg ákvörðun að taka að greiðslujöfnunin næði almennt og til allra. Fólk þyrfti að afþakka hana ef hún þyrfti ekki að ganga yfir lán þess. Það var mjög skynsamleg ráðstöfun. Ég fagna því mjög af því að ég gef mér að það hafi ekki verði sjálfgefið að svo væri. Það hlýtur að verða fyrsta viðbragð fjármálafyrirtækjanna að segja: Ja, þeir sem óska eftir því. Það gefur augaleið. Þetta er mjög hyggileg ráðstöfun og ég fagna henni. Ég er ánægður með að ráðherra hafi náð því fram í þeirri vinnu sem mjög margir hafa komið að, fjöldi fólks, einstaklingar, stofnanir, fyrirtæki og þeir sem bera hagsmuni þessara mála mjög fyrir brjósti og við vitum alveg hvað sjónarmiðin eru ólík.

Í öðru lagi, og það sem ég held að skipti mjög miklu máli, er það sem heitir sértæk skuldaaðlögun. Lengi hefur verið barist fyrir lögum um greiðsluaðlögun. Þau gengu fram fyrr á þessu ári en þau eru gölluð. Þeir ágallar væru kannski ekki svo áberandi ef við værum í eðlilegu árferði og við venjubundnari aðstæður. En við þær fordæmislausu og erfiðu aðstæður sem núna eru kemur í ljós að lögin eru meingölluð. Þau eru niðurlægjandi og þau eru lítillækkandi. Það gengur ekki með nokkrum einasta hætti. Hæstv. ráðherra hefur boðað breytingu á þeim lögum, gott og vel. Þau koma til þingsins og vonandi sem allra fyrst. En það sem hér er lagt upp með sem sértæka skuldaaðlögun er að fólk sækir um í heimabanka sínum, viðskiptabanka eða hjá því fjármálafyrirtæki sem á veðlán þess, sækir um aðlögun þannig að jafnvægi komist á milli eigna og skulda. Endurmat verður á skulda- og eignastöðu byggt á viðskiptasögu viðkomandi, þetta er þá fólk sem að sjálfsögðu hefur lagt sig fram um að standa í skilum og fólk sem á tilkall til þess. Ekki sé um að ræða örlætisgjörning eins og það er kallað með neinum hætti, heldur sé um að ræða endurskipulagningu á skuldum og greiðslubyrði í bankanum sjálfum þannig að fólk þurfi ekki að fara í það opinbera niðurlægjandi og lítillækkandi ferli sem það svo sannarlega er þegar fólki er skipaður tilsjónarmaður, auglýst er í Lögbirtingablaði og öðru að það sé í því ferli. Það er ekki viðunandi. Og það var viðurkennt, t.d. af hæstv. félagsmálaráðherra, að það væri ekki nógu gott.

Við erum með þessu frumvarpi til laga að þétta öryggisnet samfélagsins með mjög umtalsverðum hætti við mjög erfiðar aðstæður. Mér finnst okkur takast það og efast ég ekki um að í meðförum nefnda, umsögnum hugsanlega, viðskiptanefndar, félagsmálanefndar o.s.frv. taki málið einhverjum framförum. Menn finni á því ágalla sem er hægt að laga, þar komi þingmenn allra flokka að sjálfsögðu að og tugir ef ekki hundruð umsagnaraðila. Ég efast bara ekkert um það, eins og um flest ef ekki öll hin stærri mál sem við höfum verið að fjalla um á þessu ári. Þau eru æðimörg, risastóru málin sem við höfum verið að fjalla um sem munu skipta svo óendanlega miklu máli fyrir framtíð þjóðarinnar, fyrir hag einstaklinga núna og síðar, hvort sem um er að ræða endurskipulagningu á skuldum fyrirtækja og heimila, umsókn um aðild að Evrópusambandinu, úrlausn í svo mörgum, stórum, þungum og erfiðum málum sem hafa orðið að verkefnum þings að ráðstafa og klára á því mikla örlagaári sem við erum á núna. En hér er verið að nálgast málið þannig að verið er að viðurkenna rauntapaðar kröfur. Flöt eftirgjöf núna hefði hugsanlega orðið þjóðarbúinu of dýr en í öðru lagi hefði hún ekki gagnast þeim sem kannski þurfa mest á að halda nema þá að litlu leyti og þeir hefðu þá þurft að fara í sértæka skuldaaðlögun á eftir.

Hér er verið að viðurkenna, og þar tek ég undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, að fara þarf í niðurfærslu á höfuðstól velflestra lána. Langflestir munu í lok lánstíma fá umtalsverðar afskriftir. Sett er þak á hækkunina, þak á biðreikninginn upp á þrjú ár þannig að þúsundir lána munu enda þannig að um verður að ræða verulegar eftirgjafir, en þær koma í lokin. Nú er boðið upp á að greiðslujafna, þ.e. sérstaka skuldaaðlögun í bankanum. Svo kemur niðurfærslan á höfuðstólnum í lokin. En viðurkennt er að það er réttlætismál að færa niður höfuðstól lána út af þeim miklu hamförum sem hafa gengið yfir. Það verður leiðrétting á lánum, forsendubresturinn er viðurkenndur en höfuðstóllinn er færður niður í lokin og á lánstímanum borgar fólk eftir getu.

Vel má vera að í ljós komi að breyta þurfi einhverju á næstu árum og missirum og þá gerum við það að sjálfsögðu. En það skref sem stigið er með þessu frumvarpi er mjög stórt, gífurlega stórt. Ég held að það eigi eftir að verða mjög góð sátt um málið en það kemur að sjálfsögðu í ljós. Það virðist fá ágætar viðtökur hjá þeim sem með hagsmuni almennings fara frá degi til dags, t.d. verkalýðsfélög. Samtök launafólks hafa tekið vel í málið að því er að heyra, Starfsgreinasambandið fagnaði þessu, Alþýðusambandið hefur tekið vel í málið og vonandi benda allir þessir aðilar á það í umsögnum sínum um málið í þingnefndunum á næstu vikum og mánuðum hvað megi betur fara. Þá tekur Alþingi að sjálfsögðu afstöðu til þess, lagar og leiðréttir og betrumbætir þetta gífurlega mikilvæga mál.

Hæstv. ráðherra rakti áðan kjarna málsins, aðdragandann að eignabólunni sem varð á svo undraskömmum tíma. Það var ekki þannig að verðið hafi verið að stíga á áratug eða tveimur. Sums staðar var verð mjög lágt. Það þurfti í sjálfu sér að hækka en nánast tvöföldun á fasteignaverði á hluta markaðarins á tveimur, þremur árum er að sjálfsögðu sjúkt ástand, sem betur fer fordæmislaust og endaði með ósköpum. Aðdragandi eignabólunnar og hás flugs, þessarar skulda drifnu ofsaþenslu var nefnilega stjórnvaldsaðgerð. Það liggur fyrir. Það hafa menn viðurkennt að standi þar á bak við. Þegar Íbúðalánasjóði var heimilað að veita 90% lán — í sjálfu sér er góð hugsun á bak við það og engin ástæða til að fordæma það sem slíkt eftir á, en afleiðingarnar af því urðu mjög alvarlegar. Það var þannig að 30% hluturinn sem bankarnir höfðu haft til að lána fólki það sem upp á vantaði eftir að hafa fengið íbúðalánasjóðslán var yfirtekinn af fjármálafyrirtækjunum, þ.e. bönkunum. Þeir ruddust inn á markaðinn með hörmulegum afleiðingum, miklu offorsi og látum. Buðu mjög hagstæð lán, 90–100% lán með endurskoðunarákvæði eftir 4–5 ár þannig að þeir áskildu sér rétt til að endurskoða vaxtaálag, vexti og annað á lánunum. Það skóp því þessa fordæmislausu eignabólu og þenslu á fasteignamarkaði og þess vegna er það ábyrgð og skylda stjórnvalda að leiðrétta það út af hinum mikla og djúpstæða forsendubresti sem átti sér hérna stað.

Við getum rætt um aðstæður og aðdraganda lengi og eigum eftir að gera það í marga mánuði og mörg missiri. En þarna kom svo margt saman til að skapa þær efnahagslegu hamfarir sem gengu yfir landið og ganga enn yfir í þeirri mynd að nú er verið að vinna úr því á sem bestan hátt fyrir fólkið og fyrirtækin að sjálfsögðu í landinu. En stjórnvaldsaðgerðir skópu þensluna. Því þarf myndarlegar og róttækar stjórnvaldsaðgerðir til að réttlætið gangi fram aftur og þetta er stór hluti þeirra aðgerða.

Inntak þessa máls er að verið er að veita tímabundna heimild til eftirgjafar á skuldum og kröfum sem ella mundu tapast. Verið er gera allt sem hægt er að gera eða alla vega mikið af því sem hægt er að gera til að varðveita vilja fólks til að greiða af lánum sínum, koma í veg fyrir gjaldþrot fólks og að fólk missi eigur sínar. Síðast en ekki síst er verið að leiðrétta mikið ranglæti af því að ekki er bara spurning hvort fólk geti borgað af lánunum með því að herða að annars staðar heldur þarf að leiðrétta. Það er verið að gera hér og lagt upp með þessum hætti í stað flatrar eftirgjafar fyrir fram sem er bara önnur leið. Hún er leið sem kemur að sjálfsögðu alltaf til greina og er eitt af því sem við erum að skoða og höfum verið að skoða. En þetta er niðurstaða ríkisstjórnar og ráðherra.

Mér finnst þetta góð leið. Þetta gagnast mest þeim sem á þurfa að halda, þ.e. sértæka skuldaaðlögunin, greiðslujöfnunin strax, og síðan er alltaf lokaúrræðið fyrir þá sem sértæka skuldaaðlögunin gagnast ekki, þ.e. endurbætt greiðsluaðlögun þannig að það sé boðlegt úrræði og hin ómögulegu element verði tekin út þegar málið gengur fram aftur. Hérna er verið að leggja upp jafnvægi milli eigna og skulda sem ganga fram með þessum hætti. Ég held að vísir verði að samfélagssátt um þessa leið. Þess vegna er ég mjög ánægður með málið og fagna því að það fái býsna góðar viðtökur í samfélaginu og svo er það okkar allra, þings og hagsmunaaðila, að bæta það enn frekar ef þörf er á í meðförum þingsins.