138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Fyrst aðeins, frú forseti, um það sem þingmaðurinn spurði um skattamálin og fjárlagafrumvarpið, það er náttúrlega risastórt verkefni og eitt af stóru úrlausnarefnum þessa árs þannig að við eigum eftir að ræða það betur og ítarlegar. En ég hef sagt að við eigum að skoða með opnum hug tillögur sjálfstæðismanna í nefndum þingsins. Þar gengur frumvarpið út á að hlífa við aukinni skattbyrði þeim sem á þurfa að halda. Frumvarpið miðar að því að reyna að dreifa þessu sem réttlátast. Ég hef ekki áhyggjur af því að það hirði með neinum hætti þann mikla ábata sem margir hafa af þessu. Mestu máli skiptir náttúrlega að færa afborganir skulda til þess sem þær voru fyrir hið mikla fall.

Þingmaðurinn spurði líka mjög athyglisverðrar spurningar um hvar ætti að miða við afborganir af erlendu lánunum. Mig langaði til að svara því á þessum stutta tíma. Ég tala oft fyrir því að það væri mjög einföld leið að færa þau yfir í íslenskar krónur á tökugengi, verðbótareikna þær svo fram, nákvæmlega til að gæta jafnvægis á við íslensku lánin og forðast allan mismun. Það er erfitt að taka einn mánuð af því að lán eru tekin á löngu tímabili á mjög ólíku og breiðu gengi þannig að það kemur mjög misvel út eftir því hvar það var tekið. Það hefði verið skynsamlegt að skoða það að miða hvert einasta lán við gengið sem það var tekið á til að mismuna engum, verðbótareikna það fram, fara svo með það eins og verðtryggðu lánin í skuldajöfnun og höfuðstólameðferð í lokin. Það hefði verið freistandi leið með þau lán. Ég hef oft talað fyrir því. Í fyrstu taldi ég hana þá leið sem lægi beinast við að fara hvað varðaði meðferð þeirra nákvæmlega út frá jafnræðisprinsippinu um hvaða mánuð ætlunin er að miða öll lánin við, en ég treysti því að nefndin muni skoða þetta með opnum huga í meðferð sinni.