138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:26]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér fjöllum við um frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

Eitt helsta stefnumál Hreyfingarinnar er einmitt að gripið verði þegar í stað til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja og því gladdi það mig mjög að heyra að hæstv. félagsmálaráðherra ætlaði nú loks að leggja fram frumvarp um þessi mál þótt vissulega hefði verið óskandi að aðgerðirnar hefðu verið fyrr á ferðinni og að það sem þegar hefur verið gert hefði verið bitastæðara og betur heppnað.

Ég held að eitt það allra mikilvægasta nú á þessum tímum sé að fólki finnist það búa í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Við þurfum á samstöðu og kröftum allra að halda við að byggja upp þjóðfélagið að nýju. Hér varð algjör forsendubrestur og skuldbindingar venjulegs fólks uxu því yfir höfuð. Vissulega fóru sumir geyst en langflestir voru einungis að koma þaki yfir höfuð fjölskyldu sinnar. Slíkt hafði ekki verið talið til áhættufjárfestinga fyrir hrunið hér á landi. Venjulegt fólk ber ekki ábyrgð á bankahruninu, en því er gert að standa undir endurreisninni. Því er það lágmarkskrafa að komið sé til móts við fólk með raunverulegri leiðréttingu lána þess en ekki hókuspókus-brellum. Við í Hreyfingunni viljum að alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins, til janúar 2008, og að höfuðstóll og afborganir húsnæðislána lækki til samræmis við það. Skuldabyrði heimilanna vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við verðtryggð íbúðalán. Í framhaldinu þarf svo að afnema verðtrygginguna með öllu og lækka vexti svo um munar. Þá fyrst er réttlæti náð.

Ekki gera ekki neitt, er slagorð fyrirtækis hér á landi og hér er vissulega stigið skref í rétta átt. Því ber að fagna, en betur má ef duga skal. Eins fagna ég þeim tillögum ráðherra að skipa þverpólitískan hóp sem fylgist með þessum málum.

Ég hef miklar áhyggjur af fasteignamarkaðnum verði ekki farið í beinar leiðréttingar. Án leiðréttinga á höfuðstól veðlána er geta fólks til fjárfestinga skert verulega. Við vitum að eignir margra, sérstaklega þeirra sem hafa keypt húsnæði sitt á síðustu árum, eru yfirveðsettar vegna þess að verð eigna hefur fallið en höfuðstóllinn vex og vex. Ég lái fólki ekki að sjá ekki tilganginn í því að borga af eignum sínum. Þetta fyrirkomulag hneppir fólk í nútímaátthagafjötra og jafnvel hjónabandsfjötra, en ég þekki nokkur dæmi þess að fólk getur ekki skilið eða slitið sambúð vegna þess að vonlaust er að gera upp bú þess við þessar aðstæður, hvað þá selja eignina. Að minnka eða stækka við sig húsnæði er einnig ógerlegt með stökkbreyttan skuldahala á eftir sér. Á sama tíma er tómt, nýtt og jafnvel hálfbyggt íbúðarhúsnæði úti um víðan völl sem enginn veit hvað gera skal við.

Ég hef verulegar efasemdir um þær aðferðir sem notaðar eru til greiðslujöfnunarinnar sjálfrar. Þær byggja á almennri launaþróun og atvinnustigi en ekki endilega veruleika skuldarans. Atvinnulaus skuldari getur verið jafnatvinnulaus eftir ár þótt Gunna í næsta húsi og einhverjir aðrir hafi fengið vinnu. Og þótt laun hækki almennt er ekki þar með sagt að laun allra hækki.

Eins væri gaman að fá nánari skýringar á því hvað gerist ef fólk vill greiða inn á höfuðstól lána sinna, eins og margir hafa gert síðustu ár. Er þeim fjármunum hent út um gluggann eða verður tekið tillit til þeirra í lok lánstímans eftir þessi þrjú ár? Styttist það tímabil jafnvel?

Nú hafa borist ýmsar fregnir af því að lán hafi verið færð á milli gömlu og nýju bankanna með verulegum afslætti. Síðast á laugardag var frétt á mbl.is þar sem sagt var frá því að samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefði Kaupþing boðið nokkrum fjölda smábátaeigenda 35–45% niðurfærslu á höfuðstól gengistryggðra lána. Væri ekki sanngjarnt að heimilin í landinu nytu svipaðra kjara?

Ég tek ekki undir með þeim hugmyndum sumra sjálfstæðismanna að mikilvægt sé að halda í þá hefð að sem flestir Íslendingar eigi sitt eigið íbúðarhúsnæði. Síðustu áratugi hafa margir Bjartir í Sumarhúsum afsalað sér miklum lífsgæðum fyrir steypu, stefnt sér í botnlausar skuldir og ómælda vinnu fyrir að láta drauminn um eigið húsnæði rætast. Þetta mikla álag hefur oft og tíðum bitnað harkalega á fjölskyldulífi og ungum börnum og falið í sér fjarvistir og jafnvel vanrækslu.

Hinn kosturinn hefur ekki verið álitlegur því að hér á landi hefur leigumarkaðurinn verið ákaflega ótryggur og vanþroskaður. Mig langar að nota tækifærið og skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að skapa hér heilbrigðan leigumarkað svo leiga á íbúðarhúsnæði verði raunhæfur og tryggur valkostur fyrir fólk.