138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:32]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Félags- og tryggingamálaráðherra kynnir í dag aðgerðir sínar til aðstoðar heimilunum. Hér er á ferðinni mikilvægt hagsmunamál og tek ég hatt minn ofan fyrir ráðuneytinu og þeirri vinnu sem hefur átt sér stað á vettvangi þess. Skipta má aðgerðunum upp í þrjár leiðir, greiðsluaðlögun fyrir þá allra verst stöddu, skuldaaðlögun fyrir þau heimili sem eru mjög illa stödd og síðan svokallaða leiðréttingu sem er almenn aðgerð ætluð a.m.k. 80% heimila að öllum líkindum þannig að það sem fólk greiðir af lánum sínum verður það sama og það greiddi fyrir hrun.

Ég held að það sé rétt mat hjá ráðherra, eins og hann lagði áherslu á í framsöguræðu sinni, að nú er ekki rétti tíminn til að leggja mat á það tjón sem hefur orðið. Við erum stödd í dýpsta hluta kreppunnar. Við erum í miðjum jarðskjálftanum og þess vegna er ekki ráðlegt að ráðast í viðamiklar afskriftir eins og sakir standa. Við megum ekki gleyma því að umræðan snýst ekki bara um að afskrifa beri hjá einhverjum heldur líka hjá hverjum verður ekki afskrifað. Ég held að það sé ekki ráðlegt að ráðast í viðamiklar afskriftir á þessum tímapunkti í ferlinu.

Ég fagna því samráði sem hefur átt sér stað á vettvangi ráðuneytisins á undanförnum vikum við undirbúning þessa frumvarps og um leið því samráði sem mun verða áfram á vettvangi þingsins með samstarfshópi allra þingflokka. Hér kynnir ráðuneytið samræmdar vinnureglur fyrir fjármálastofnanir. Það er klók nálgun að gera lánastofnanirnar, þ.e. kröfuhafana, beina aðila að þessu verkefni vegna þess að þær eiga mikla hagsmuni í því að við styrkjum efnahaginn í landinu, hvort sem erlendir eða innlendir kröfuhafar koma að rekstri bankanna.

Þessi þrískipting er sanngjörn aðgerð eins og ég kom að í upphafi. Annars vegar leiðréttum við greiðslubyrðina þar sem fólk borgar það sama og það borgaði fyrir hrun. Við jöfnum hana, hlutirnir eru settir á biðreikning. Við tökum verðbólguna að einhverju leyti úr sambandi og viðurkennum um leið að stilla beri málinu upp á nýjan leik. Liður 2 er endurskipulagning skulda fyrir þá sem að öllu óbreyttu stefna í gjaldþrot þar sem miðað verði við hóflegt húsnæði og bíl. Það er ljóst að ef við förum ekki í viðamiklar aðgerðir þar eru hér á ferðinni tapaðar kröfur. Ef fólk er í skilum verður það afskrifað en væntanlega mun þessi hluti aðgerðanna nýtast 15% heimila. Sú aðgerð sem gengur hvað lengst og má kalla greiðsluaðlögun plús er þegar fólk verður fyrir verulegu tekjufalli, hefur t.d. ráðist í miklar fjárfestingar, og þar erum við kannski að setja mannlegan hjúp á gjaldþrotameðferð. Um leið eru þar afskriftir á þriggja ára ferli. Ég tel að þessi þrískipting aðgerða sé að einhverju leyti sanngjörn nálgun á það viðamikla verkefni sem nú þarf að takast á við.

Um leið er ráðist í aðgerðir sem segja má að séu á viðskiptalegum forsendum, þ.e. fjármálastofnanir hafa hag af því að fara í viðamiklar aðgerðir gagnvart þeim skuldunautur á þeim grunni að það sé betra að endurskipuleggja skuldirnar gegn því að innheimta það sem mögulegt er. Af hverju var ekki farið í þessar aðgerðir fyrr? Eins og fram hefur komið var mat á lánastofnunum forsenda þess að hægt væri að ráðast í aðgerðir og því nauðsynlegur forveri þess að þetta frumvarp er fram komið. Við megum heldur ekki gleyma því að það eru erlendir lánardrottnar sem taka fyrst og fremst á sig þann skell sem hefur orðið í íslensku efnahagslífi, kannski um 6.000 milljarða kr. Með þessari breytingu, að skipta upp í nýju og gömlu bankana, tökumst við á við það nauðsynlega verkefni að koma heimilunum til hjálpar.

Ríkið hefur mótað lagaramma hér og ég hvet félags- og tryggingamálanefnd að taka á þessu í anda þess sem rætt hefur verið á Alþingi í dag. Tillögurnar miða að því að aðstoða verulega þá sem þurfa á aðstoð að halda en aðrir fái hjálp við að komast yfir hið tímabundna ástand. Lánastofnanir bera kostnað af þessum aðgerðum sem ég tel að sé sanngjörn lending enda væri ótækt að ríkisvaldið greiddi kostnaðinn af aðstoð til að viðkomandi heimili gæti betur staðið í skilum við lánardrottnana. Við megum ekki gleyma því að ríkisvaldið hefur enga sjóði til að ganga í. Það greiðir rétt um 100 milljarða kr. í vexti af því sem það skuldar nú þegar.

Hvað snertir meðferð málsins í þinginu óska ég eftir því að sá hluti frumvarpsins sem snertir fyrirtækin í landinu fari til viðskiptanefndar til umsagnar enda hefur aðgerðir fjármálastofnana vegna skuldavanda fyrirtækjanna borið á góma í viðskiptanefnd. Því er eðlilegt að viðskiptanefnd fái að segja sitt um þann hluta frumvarpsins.