138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:46]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu brýna máli sem við eigum náttúrlega að vera í stöðugri umhugsun um og umræðu. Vissulega er skuldastaða sjávarútvegsins alvarlegt áhyggjuefni og ekki skal ég draga úr því. Þingmaðurinn spurði sérstaklega um þau áform sem lúta að innköllun aflaheimilda og allir sem hér eru vita að það er ákvæði í stjórnarsáttmálanum um að lagður verði grunnur að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka. Sú endurskoðun verði unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiársins 1. september 2010. En þarna er líka kveðið á um að skipaður sé starfshópur sem vinni að endurskoðuninni og kalli til samráðs hagsmunaaðila og sérfræðinga. Sú nefnd hefur verið sett á laggirnar og hún er að störfum. Störfum hennar seinkaði lítillega vegna þess að þingheimur var upptekinn við annað í sumar, þ.e. að leysa Icesave-málið, og verkstjórn nefndarinnar er í höndum formanns fjárlaganefndar. Það er því skiljanlegt að svolítill dráttur yrði á því að nefndin hæfi störf en hún er að störfum núna og hún hefur nokkra mánuði til að færa sjávarútvegsráðherra tillögur að því hvernig staðið verði að þeim breytingum á kvótakerfinu sem fyrirheit eru um í stjórnarsáttmála.

Stjórnarsáttmálinn stendur, það er bara þannig. Við gerum fastlega ráð fyrir því, báðir stjórnarflokkar, að unnið verði vel og dyggilega eftir þessum sáttmála. Ég skil það vel að sjávarútvegsráðherra skuli vera varfærinn í yfirlýsingum og ummælum um þetta mál á meðan starfshópurinn sem hann hefur skipað er enn að störfum.