138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli þingheims á grein í Morgunblaðinu í dag þar sem enn og aftur kemur í ljós að sú ríkisstjórn sem hér situr hefur að engu þær ályktanir eða það sem Alþingi sendir frá sér og samþykkir. Það er mjög athyglisvert að það skuli koma í raun blygðunarlítið eða -laust fram í þessari grein að svo virðist sem ríkisstjórninni finnist allt í lagi að það sem Alþingi samþykkir gildi ekki. Hér er verið að tala um að nú þegar er búið að senda fyrstu svörin við spurningalista Evrópusambandsins til Brussel áður en búið er að skipa í og áður en tekið hafa til starfa þeir málefnahópar eða vinnuhópar sem eiga að fara yfir þessar spurningar og svör. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp úr greinargerð sem fylgdi með og samþykkt var á Alþingi en þar stendur:

„Þessir hópar halda utan um samningaviðræður, hver á sínu sviði, allt frá upphafi ferlisins til enda. Það felst m.a. í því að undirbúa svör við spurningum sambandsins, taka þátt í yfirferð yfir regluverk Íslands og ESB og undirbúa samningsafstöðu Íslands, auk þess að taka þátt í samningaviðræðum.“

Að undirbúa svör við spurningum. Hvernig í ósköpunum geta vinnuhópar eða hópar sem að þessu koma undirbúið svör þegar farið er að senda þau nú þegar, þegar búið er að senda svörin? Mér vitanlega er hreinlega allur bunkinn kominn í póst eða að fara. Þetta er enn eitt dæmið um þá vanvirðingu sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér sýnir Alþingi. Þetta er algerlega óþolandi og það hlýtur að vera þannig að þeir sem láta sig þetta mál einhverju skipta geri athugasemdir við þetta, þó að síðar verði.