138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði áðan að svöruninni við spurningum Evrópusambandsins er að mestu leyti lokið í góðri samvinnu fagráðuneyta og sömuleiðis starfsmanna utanríkisráðuneytisins. Ég hef svarað þessu og gert skýra grein fyrir því í Morgunblaðinu í dag. Eins og hv. þingmaður sagði hefur hann fyllsta rétt til að koma hér síðar og ræða þetta við mig.

Ég kem hingað aðallega til að svara spurningu hv. Illuga Gunnarssonar. Hann telur að það sé rétt að þingheimur reyni að glöggva sig á afstöðu þingmanna og ráðherra stjórnarliðsins til Icesave-frumvarpsins sem verður rætt á morgun og hann spyr hvort við teljum að það frumvarp rúmist innan þeirra fyrirvara og þeirra laga sem samþykkt voru fyrr á þessu ári. Ég tel að svo sé. Ég tel að í öllum megindráttum séu fyrirvararnir sem þá voru settir inni í frumvarpinu og að sumu leyti styrktir. Frávikið er þó eitt og það er alveg rétt að segja það undanbragðalaust. Samkvæmt frumvarpinu, sem verður rætt á morgun, verður það þannig að ríkið mun ábyrgjast þær eftirstöðvar sem kunna að verða eftir árið 2024. Það er munurinn. Ég tel hins vegar að eins og málum er hagað núna miðað við þær upplýsingar sem hafa komið fram um virði eigna Landsbankans séu hverfandi líkur á því að það verði nokkuð eftir. Og þegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hérna og spá hálfgerðum hagfræðilegum heimsendi á Íslandi og tala um að hér verði enginn hagvöxtur á næstu árum, þá vek ég eftirtekt á því að ef sú staða kemur upp er það varið af endurskoðunarákvæðinu. Áfram gildir það líka alveg klárt og kvitt að það sem hv. þm. Pétur Blöndal kallaði tæra snilld, þ.e. hinir efnahagslegu fyrirvarar, þeir gilda áfram og þeir tryggja að aldrei verða lagðar efnahagslegar klyfjar á Íslendinga sem þeir geta ekki staðið undir.