138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[14:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þessari umræðu í dag. Sérstaklega verð ég þó að segja að mér hefur fundist hálfsorglegt að fylgjast með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og umpóleringu hennar svo ég sletti aðeins. Ég hef vissa samúð með þingmanninum vegna þess að kynni mín af henni eru þau að hún er heiðarleg og trú hugsjónum sínum. Þess vegna þykir mér hálfvandræðalegt fyrir hana að koma hér og vera fullkomlega rökþrota. Og hvað gerir rökþrota fólk? Það grípur til þess að skella sér með dynk og stæl ofan í pólitísku skotgrafirnar.

Hvað gera vinstri grænir þegar þeir eru algerlega rökþrota? Þeir benda á Sjálfstæðisflokkinn, minnisblaðið frá því í október/nóvember. Það er ástæðan fyrir því að við erum hér. Hv. þingmanni til upplýsingar var aldrei skrifað undir þetta sem samning eins og þann samning sem hæstv. fjármálaráðherra ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar skrifaði undir í júní. Skuldbindingin og sá Icesave-samningur sem við erum að ræða hér og ræddum í allt sumar og fáum inn í þingið á morgun er samningur sem hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar bera ábyrgð á. Við reyndum í allt sumar að koma okkur upp úr þessum skotgröfum til að bæta þetta mál og náðum um það góðri samstöðu og núna þegar ekki bara við á þinginu heldur óháðir sérfræðingar eins og hér hefur verið bent á, Ragnar H. Hall og fleiri, benda á að þeir fyrirvarar sem við í sameiningu unnum að eru tættir niður og útvatnaðir, svo notuð séu þeirra orð, (Gripið fram í.) þurfum við að hugsa, virðulegur forseti, hvort ekki sé rétt að koma okkur upp úr skotgröfunum, skoða málið og athuga (Forseti hringir.) hvort það sé virkilega þannig að þeir fyrirvarar haldi sem við samþykkjum í dag. Það skulum við ræða á morgun þegar við (Forseti hringir.) tökum þessa umræðu og ég treysti því að hv. þingmaður, sem talar mikið um (Forseti hringir.) meðferð þingsins á öllum málum og að við eigum að hafa fingraför okkar á þessu, (Forseti hringir.) fari eftir sannfæringu sinni.