138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:25]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu um Landsvirkjun. Hún hefur gengið fram eins og ríki í ríkinu undanfarna áratugi. Ég þekki það sjálfur þegar ég starfaði sem deildarstjóri ríkisábyrgða um árabil hjá Lánasýslu ríkisins. (Gripið fram í: Ríki …) Þar er kveðið á í lögum um að ríkisábyrgðarsjóður eigi að hafa eftirlit með ríkisábyrgðarþegum. Það eftirlit hefur aldrei farið fram. Við gerðum tilraun til þess að byrja á slíku eftirliti þegar ég starfaði þarna og tókum m.a. fyrir Landsvirkjun. Það kom í ljós, eins og fram hefur komið, að fjármálastjórnun Landsvirkjunar er mjög vönduð en hún er líka gríðarlega flókin. Það er einmitt sú flókna fjármálastjórnun sem varð hvað harðast fyrir barðinu í þessu hruni sem hefur gengið yfir heimsbyggðina undanfarið tæpt ár.

Við komumst líka að því sem var mjög áhugavert, þegar menn ræða hér arðsemi virkjana og arðsemi Landsvirkjunar, að á þeim þremur árum sem voru að upphafi Kárahnjúkavirkjunar hækkaði Landsvirkjun raforkuverð til almenningsrafveitna það mikið að það skipti fyrirtækið engu máli þó að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar yrði 0, fyrirtækið gæti staðið undir greiðslum af virkjuninni vegna raforkuskatta á almenning í landinu. Þetta er náttúrlega alvarlegt mál því að það hefur komið í ljós að það fæst aldrei uppgefið hvert raforkuverðið er til stóriðju.

Hér er komið atriði, hæstv. fjármálaráðherra, sem þarf að skoða. Landsvirkjun tók líka lán á þessum tíma á vöxtum hjá Landsbankanum sem voru hærri en gekk og gerðist á fjármálamörkuðum. Tilraunir til þess að hafa áhrif á þá lántöku voru numdar úr gildi af þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, sem nú liggur undir rannsókn vegna hugsanlegra innherjaviðskipta. (Forseti hringir.) Það er víða pottur brotinn í íslenskri stjórnsýslu hvað viðkemur virkjanamálum og sérstaklega Landsvirkjun. Það fyrirkomulag sem hér er og hefur verið á starfsemi Landsvirkjunar er orðið algerlega (Forseti hringir.) úrelt og vonandi breytir hæstv. fjármálaráðherra því.