138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, fyrir að vekja máls á þessu þarfa málefni og jafnframt hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýr og greinargóð svör.

Eins og alþjóð veit er Landsvirkjun mjög mikilvægt fyrirtæki fyrir Ísland og hefur alltaf verið einn af hornsteinum atvinnulífs okkar. Við þurfum að gæta þess, við sem sitjum á Alþingi, að tala samfélagið okkar, fyrirtækin okkar, upp en ekki niður, eins og örlaði á í málflutningi sumra hv. þingmanna sem talað hafa hér í dag. Það liggur fyrir okkur Íslendingum að auka gjaldeyristekjur okkar. Það gerum við með því að hlúa að fyrirtækjum okkar og þar á meðal Landsvirkjun.

Það er gríðarlega mikilvægt að við höldum vel á málum og löðum að erlenda fjárfesta sem hafa gríðarlegan áhuga á að fjárfesta í orkufrekum iðnaði. Landsvirkjun er fyrirtæki sem getur staðið við allar skuldbindingar sínar út árið 2010 án þess að taka ný lán. Það er öfundsvert í dag. Það eru því miður ekki mörg fyrirtæki sem geta státað af því í dag. Við skulum átta okkur á þeirri staðreynd og tala af virðingu um hlutina og á réttan hátt. Við skulum hafa í huga að gullna reglan í því að byggja samfélagið upp er að tala upp en ekki niður. Við eigum mikil tækifæri hér á Íslandi ef við grípum þau og höldum vel á spilunum.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að við séum á rangri leið varðandi það hvernig við tökum á málefnum erlendra fjárfesta. Er það rétt af ríkisstjórninni að henda hugmyndum um orkuskatta inn í fjárlögin án þess að hún sé þar útfærð nema á einhvern hátt sem enginn vill kannast við að sé réttur? Hvers vegna er þetta gert? Þetta er ekki ábyrgt. Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi okkur um það hvers vegna þessi vinnubrögð eru viðhöfð.

Jafnframt tel ég það ekki okkur til hagsbóta að umhverfisráðherra sé sífellt að snúa við úrskurðum sínum, úrskurðum ráðuneytisins, án þess að vera í neinu samráði við hagsmunaaðila. (Forseti hringir.) Hvers vegna eru þessi vinnubrögð viðhöfð, hæstv. forseti? Við verðum að muna að tala okkur sjálf upp en ekki niður og viðhafa þau vinnubrögð að við stuðlum hér að auknum gjaldeyristekjum.