138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:34]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Harla mikilvæg umræða sem hér fer fram um Landsvirkjun, þetta mikilvæga fyrirtæki í þjóðarbúskap okkar Íslendinga. En það er jafnframt mjög mikilvægt að tala fyrirtæki ekki niður, hvort heldur er ríkisfyrirtæki eða einkafyrirtæki í þessu landi, nóg er nú samt. Ég held við eigum að taka undir orð hv. þingmanns sem kom hér á undan mér og tala fyrirtæki frekar upp en niður. Staðreyndirnar blasa líka við okkur. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar er mjög gott, 31%, og stefnir í 40% árið 2012. Til samanburðar get ég nefnt, frú forseti, Orkuveitu Reykjavíkur sem býr við 15% eiginfjárhlutfall. Það var 50% fyrir nokkrum árum. Miðað við það er eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar mjög gott, í versta falli viðunandi.

Fyrirtækið þarf engin ný lán til ársins 2011, að því gefnu að ekki verði ráðist í nýjar framkvæmdir. Væntanlega verða ný verkefni tengd ákveðnum verkum eins og komið hefur fram í þessari umræðu, þannig að þegar á allt er litið er staða Landsvirkjunar með ágætum ef svo má segja, miðað við það sem gengur og gerist hér á landi.

Ég tel hins vegar eðlilegt, talandi um frekari framkvæmdir Landsvirkjunar, að þau fyrirtæki sem þar er skipt við taki eðlilegan þátt í skattbyrðinni hér á landi. Vandamál þeirra fyrirtækja sem hugsanlega koma hér að og skipta við Landsvirkjun á komandi árum eru ekki eðlilegur partur af skattbyrðinni heldur lánalínur til útlanda. Það er jú helsta vandamál orkufyrirtækja og annarra fyrirtækja hér á Íslandi í bráð, vonandi ekki í lengd, að lán fást ekki til orkufyrirtækja. Því verður að kippa í liðinn og að því er stefnt af hálfu stjórnvalda.