138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra kærlega fyrir svör hans og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni innlegg þeirra. Ég geri þá kröfu á ráðherra þegar boðað er til utandagskrárumræðna hér á Alþingi að þeir þingmenn sem byrja þá umræðu séu vel upplýstir en allt sem kom fram í máli ráðherrans má finna í samstæðuárshlutareikningi Landsvirkjunar frá 30. júní 2009. Ég var kannski ekki að tala um að það þyrfti að fara ofan í ársreikningana, ég var fyrst og fremst að lýsa þeim áhyggjum mínum hve Landsvirkjun væri skuldsett og hvernig Landsvirkjun hefði getað komið sér í þessar ógöngur með því að skulda svona mikið fjármagn úr því að tekjur og gjöld eru í sömu mynt. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Auðvitað megum við ekki tala fyrirtækið niður en við verðum að horfast í augu við vandamálið. Við megum ekki reka þá pólitík árið 2009, eins og var rekin 2007, að hér sé ekkert að. Hér er heilmikið að. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig Landsvirkjun fer út úr þessu, sérstaklega eftir að matsfyrirtæki mátu Landsvirkjun niður fyrir það mark sem hæfilegt er. Þegar fyrirtæki fer í ruslflokk þá hefur það eðli máls samkvæmt ekki lánstraust.

Það gleður mig að fjármálaráðherra upplýsti hér áðan að engin gjaldfellingarákvæði séu í lánum Landsvirkjunar varðandi það að matið sé komið niður í ruslflokk, það eru sem betur fer jákvæðir punktar í þeirri umræðu. Til þess er leikurinn líka gerður að fá nýjar upplýsingar. Það er einmitt eins og ég sagði með þessa staðla sem Landsvirkjun fór að gera upp með, þessa Evrópustaðla, og breyta yfir í starfrækslumynt, þetta hefur verið gagnrýnt út um heim. En ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýr svör þó að ég hefði kannski viljað fá skýrari framtíðarsýn (Forseti hringir.) ráðherrans á því hvernig fyrirtækið kemur til með að spjara sig til framtíðar.