138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:03]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af því sem við ræddum þegar við vorum að fara yfir þessa tillögu aftur núna til þess að leggja hana fram var hvort líka væri verið að tala um neyslulán eða bílalán og við tókum þá ákvörðun að leggja áherslu á fasteignalán og lán til rekstrarfyrirtækja.

Sumir sem maður hefur rætt við segja að ástæðan fyrir þessari forgangsröðun okkar sé að við teljum að það skipti mestu máli að fólk hafi þak yfir höfuðið. Það skipti máli að fólk hafi vinnu. Hins vegar teljum við að við getum ekki forgangsraðað almennum neyslulánum og bílalánum á sama hátt og þessum grundvallarlánum. Það var ástæðan fyrir því að við tókum þá ákvörðun um að leggja áherslu á það.

Ég náði ekki alveg að svara áðan varðandi sértækar aðgerðir. Ég tel að við þurfum að ganga töluvert lengra en þegar er búið að ganga. Ég er ekki viss um að leið eins og t.d. hæstv. dómsmálaráðherra lagði til, að fresta enn frekar uppboðum á húsnæði fólks til 1. febrúar, sé endilega það sem við þurfum að gera. Við þurfum að vinna úr þessum málum. Hagsmunasamtök heimilanna hafa t.d. lagt mikla áherslu á að lagfæra lögin um fyrningu kröfuréttinda þannig að ef einhver yrði gjaldþrota væri ekki hægt að halda við kröfunni út í hið óendanlega.

Annað sem mér skilst að ríkisstjórnin sé að skoða líka varðar greiðsluaðlögunina, hvernig við getum útvíkkað hana gagnvart þeim sem hafa staðið í atvinnurekstri. Sérstaklega hjá þeim sem hafa rekið fyrirtæki á eigin kennitölu, t.d. bændum og þeim sem reka lítil fyrirtæki, er það mjög oft þannig að þeirra veð er fasteignin. Heimili þeirra er undir í fyrirtækjarekstrinum (Forseti hringir.) og þá skiptir náttúrlega gífurlega miklu máli að við getum tryggt að það fólk þurfi ekki að fara á götuna.