138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:11]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér eitt brýnasta málið sem brennur á almenningi á Íslandi í dag, það er vandi íbúðareigenda og væntanlegt greiðsluþrot þúsunda ef ekki tugþúsunda fjölskyldna af þeim sökum. Þess vegna fagna ég mjög þessu frumvarpi framsóknarmanna um niðurfærslu á höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

Það er mjög brýnt að eitthvað verði úr þessu. Þær aðgerðir sem hæstv. félagsmálaráðherra boðaði í sínu frumvarpi og hv. þm. Magnús Orri Schram mærði svo mjög áðan eru góðra gjalda verðar svo langt sem þær ná. Þær ná mjög skammt. Þær ná aðeins að bæta afborganir og afborgunarskyldu heimila í skamman tíma og mjög lítið. Brýnasti vandinn er yfirveðsetning og þessi skuldaaukning sem hefur orðið vegna verðtryggingarinnar undanfarið tæpt ár, þar sem skuldir heimilanna hafa vaxið þeim algjörlega yfir höfuð vegna mælitækis sem heitir „vísitala neysluverðs“ og byggir m.a. á því að skuldir heimilanna vaxa vegna þess að verð á tómatsósu hækkar. Skuldir heimilanna vaxa vegna þess að verð á naglaklippum og bensíni hækkar. Þetta er eins brenglað mælitæki og hægt er að hugsa sér að nota í efnahagslegum tilgangi. Það var sett á sem skammtímaráðstöfun fyrir tæplega 30 árum. Í kjölfarið keyrði það í greiðsluþrot tugþúsundir fjölskyldna sem voru við það að koma sér þaki yfir höfuðið á árunum 1985–1990.

Það er ekki lengra síðan að við upplifðum stórkostleg mistök vegna þessarar verðtryggingar. Núna erum við aftur að gera það sama og fjöldi fólks sem missti allt sitt á þeim tíma lendir aftur í sömu stöðu í dag. Sumt af því flytur aftur úr landi og ætlar aldrei að koma aftur. Sumt er að flytja úr landi í fyrsta skipti. Það er allt annað mál að missa heimili sitt þar sem foreldrar og börn búa og fara í skóla, að þurfa að taka myndirnar niður af veggjunum, pakka saman dótinu sem er í kössunum, rústa í raun fjölskyldunni og flytja eitthvað með hana, í annað hverfi, aðra íbúð, annað land – það er miklu meira mál að vega svoleiðis að lífi fólks en þegar verið er að tala um t.d. hrun fyrirtækja. Það er grundvallaratriði í lífinu sjálfu að fólk fái að hafa sín heimili í friði. Það á ekki, og ég endurtek, það á alls ekki að líða að einhverjir fjármagnseigendur sem vilja hafa bæði belti og axlabönd á sínum eigum komist upp með að fara svona með fjölskyldur í landinu, bara vegna þess að þeir vilja halda í verðtrygginguna. Að draga hvern lífeyrissjóðsforstöðumanninn á fætur öðrum upp á dekk til þess að hlusta á hann mæra verðtrygginguna og hvað hún sé nauðsynleg, það er illa gert. Með þessu er verið að koma illa fram við fólkið í landinu.

Verðtrygging með þessum hætti þekkist ekki í neinu nágrannalandanna og í mjög litlum mæli í örfáum öðrum löndum, að vísu í tveimur eða þremur löndum með svipuðu sniði og hér. Verðtrygging erlendis er nánast alfarið með þeim hætti að verðtrygging á lengstu skuldabréfaútgáfu ríkissjóða, þ.e. 30–40 ára bréfum, er einfaldlega gefin út með þeim hætti til þess að lífeyrissjóðir geti fjárfest til langs tíma í þeim. Það eru mjög lágir vextir á þessum bréfum. Hér er verðtrygging almenn regla og hefur farið eins og fram hefur komið mjög illa með heimilin í landinu.

Það er algjört frumskilyrði fyrir endurreisn íslensks samfélags og þjóðarbúsins að heimilin nái að rétta úr kútnum. Þau ná ekki að rétta úr kútnum með aðgerðum félagsmálaráðherra. Það að skipta út vísitölu neysluverðs fyrir vísitölu greiðslujöfnunar er bara plat. Það er verið að ginna fólk inn í enn eina vísitöluna sem er nákvæmlega jafnfáránlega samsett og vísitala neysluverðs. Ef ég samþykki þessa breytingu hæstv. félagsmálaráðherra munu afborganir af mínum húsnæðislánum hækka af því Jói í næsta húsi fær launahækkun. Hvað kemur það mínum skuldum við? Þá munu afborganir á mínum húsnæðislánum hækka vegna þess að Siggi í þarnæsta húsi sem var atvinnulaus fær vinnu. Hvað kemur það mínum skuldum við? Þetta er innantómur og endalaus blekkingarleikur. Ég krefst þess einfaldlega að samfylkingarfólk taki hausinn upp úr sandinum, horfi á það sem er raunverulega á bak við þessa vísitölu og velti því fyrir sér til hvers í andskotanum við höfum hana. Það er til þess að halda uppi fjármagnseigendum á Íslandi.

Þessi 20% niðurfelling er allra góðra gjalda verð og í samræmi við það sem við í Hreyfingunni höfum lagt til að verði gert, að vísitala neysluverðs, höfuðstóll lána verði færður aftur til janúar 2008. Hann verði ekki látinn falla á ríkið heldur látinn ganga alla leið til þeirra sem hafa keypt skuldabréf Íbúðalánasjóðs, þ.e. að þeir fjármagnseigendur sem eiga þessar skuldir taki þátt í endurreisninni með öðrum á Íslandi. Það er ekkert annað en sjálfsagt og sanngjarnt mál.

(Gripið fram í: Lífeyrissjóðirnir.) Lífeyrissjóðirnir líka, að sjálfsögðu. Þeir hafa tekið þátt í þessari spilavítissúpu sem við höfum horft á undanfarin ár. Það verður einfaldlega að koma á annarri stjórn á lífeyrissjóðunum, að atvinnurekendur verði teknir úr þeim stjórnum og að lífeyrissjóðirnir fari að fjárfesta fjármuni sína í samræmi við þarfir félagsmanna og hagsmuni þeirra en standi ekki frammi fyrir því annars vegar að setja heimilin á hausinn og hins vegar að tapa sennilega hátt í helmingi eigna sinna á undanförnu ári. Það er algjört tabú að minnast á þetta, þetta heyrist hvergi í umræðunni, en ekkert bendir til þess að íslenskir lífeyrissjóðir hafi gert nokkuð annað en að fara jafnilla út úr hruninu og lífeyrissjóðir í öðrum löndum. Það þýðir hátt í 50% eignahrun og eignatap.

Hvað varðar niðurfellingu á höfuðstól er hugsandi að setja ákveðið þak á hana. Ef menn hafa miklar áhyggjur af 100 millj. kr. húsum má hugsa sér að setja hámarksþak á þá niðurfellingu. Fyrst og fremst þarf þó að lækka höfuðstól þessara lána og það þarf að afnema verðtrygginguna. Það er dapurlegt sem maður hefur heyrt endurtekið í Ríkisútvarpinu í allan dag að það að afnema verðtryggingu sé hættulegur málflutningur. Verðtryggingin hefur valdið þessum skaða hér og þetta endalausa dekur við fjármagnseigendur verður að hætta. Það verður að fara að sinna almenningi og fjölskyldum í landinu.

Hvað varðar niðurfellingu skulda fyrirtækja er hún sennilega of seint komin fram. Ríkisstjórnin hefur séð til þess að það hefur ekki nægilega mikið verið gert í málefnum fyrirtækja. Fyrirtæki eru þó lögaðilar og í raun ekki annað en kennitala með einhverjum fjármunum inni. Það er ekki að mínu viti hægt að leggja þau að jöfnu við heimilin í landinu. Vissulega þarf að skoða skuldir fyrirtækja og það þarf að gera gangskör að því að búa til umhverfi fyrir fyrirtækjarekstur sem er fyrirtækjunum í hag en ég tel ekki rétt að spyrða saman aðgerðir til bjargar heimilunum annars vegar og fyrirtækjum hins vegar.

Ég styð þessa tillögu framsóknarmanna heils hugar að því að gefnu að fyrirtækin og aðgerðir til að bjarga þeim verði teknar út fyrir sviga og ræddar á öðrum vettvangi. Þetta framtak þeirra að koma fram með þessa þingsályktunartillögu er mjög gott. Ég fagna því og vona að fleiri þingmenn taki undir þetta mál. Þetta er brýnasta málið sem liggur fyrir vegna hugsanlegrar endurreisnar hagkerfisins og þjóðarbúsins. Hér verða ekkert annað en áframhaldandi vandræði, rifrildi og pex ef ríkisstjórnin sér ekki að sér og grípur til afgerandi aðgerða til bjargar heimilunum. Ég skora á ríkisstjórnina og þá samfylkingarmenn sem hér eru — sem eru tveir, það er alla vega betra en einn og annar þeirra er hæstv. ráðherra — að þeir velti því af alvöru fyrir sér að skoða þetta, hvers vegna Ísland þarf endilega að vera afbrigðilegt miðað við önnur lönd og búa við verðtryggingu. Við þurfum þess ekki. Þetta er vilji og hagsmunamál einstakra hópa sem koma þessu þannig fyrir og þessu þarf að breyta.