138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:21]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir orð hans. Hann var jafnskörungslegur og skýr í sínu máli og hans er venja.

Það sem ég talaði um í ræðu minni og lagði megináherslu á var að við sæjum þetta sem almenna efnahagsaðgerð og það var ástæðan fyrir því að við töldum okkur ekki geta skilið undan fyrirtækin. Hins vegar tek ég undir að þetta heyrir maður utan frá, því miður hefur reynst mjög erfitt að fá nákvæmar upplýsingar um það hér innan þings og mér skilst að meira að segja ráðherrar eigi í erfiðleikum með að fá upplýsingar um hvernig eigi að standa að afskriftum til fyrirtækja í bönkunum. Þetta var hluti af því að reyna að fá frekari upplýsingar og meiri umræðu á þinginu um hvernig staðið er að aðgerðum og afskriftum gagnvart fyrirtækjunum.

Eitt af því sem ég tel skipta mjög miklu máli er að við skoðum hvernig tekið er á fyrirtækjum hjá bönkunum núna og hvernig við getum aukið gagnsæið á þeim afskriftum sem eru í gangi. Ég hef miklar áhyggjur af því að í einhverjum tilvikum geti jafnvel verið um að ræða að fyrirtæki fái miklar afskriftir sem eru ekki endilega þau fyrirtæki sem ættu að fá afskriftirnar og jafnvel sé verið að meðhöndla fyrirtækjaeigendur á mismunandi máta eftir því hverja þeir þekkja og hverja þeir þekkja ekki. Þetta er eitt af því sem kom fram á fundi hjá viðskiptanefnd. Það var viðurkennt að bönkunum hefur reynst mjög erfitt að setja sér skýrar verklagsreglur um hvernig eigi að meðhöndla fyrirtækin. Ef svo er tel ég mjög eðlilegt að við fáum skýringar á því af hverju svo sé. Einnig ættum við að velta fyrir okkur þegar kemur að því að bankarnir þurfa að fara að losa um fyrirtæki sem þeir hafa tekið yfir, hvernig við ætlum að meðhöndla það þannig að það sé gagnsætt, skýrt og réttlátt.