138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að hlaupa til og ræða um myntskiptingu í þessu tilviki. Við höfum bent á leiðir til þess að afnema verðtrygginguna í áföngum, m.a. með því að hætta að gefa út þá fjármálapappíra sem eru tengdir með verðtryggingu. Ég deili því ekki þessum hugsunum með hv. þingmanni að við þurfum að líta austur um haf og ganga til liðs við aðra mynt vegna þess að okkar sé svo slæm. Ég held að á næstu árum verði mjög mikil þörf fyrir okkur að halda íslensku krónunni, það sýnir sig t.d. í dag varðandi útflutningsvægi og annað að hún hefur hjálpað okkur mjög mikið.

Ég man ekki hvort hv. þingmaður spurði mig að einhverju sérstöku, ég held að hann hafi aðallega verið að deila skoðun sinni á verðtryggingu með okkur, en ég held að það sé mikilvægt að fara þá vegferð að afnema hana smám saman.