138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja, sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins flytja. Við höfum rætt þetta áður og ég er eiginlega að halda sömu ræðuna. Ég legg áherslu á að þingmenn vinni saman að lausn þess vanda sem íslensk heimili og fyrirtæki standa frammi fyrir. Ég sagði það líka þegar við ræddum tillögu hæstv. félagsmálaráðherra sem er nú búið að vísa til nefndar og hún var rædd í morgun og verður rædd í kvöld í þeirri nefnd, þannig að þessi vinna er í fullum gangi.

Eins og ég sagði þegar þetta var rætt áður, þá finnst mér ótrúleg umræðan um afskriftasjóðinn. Hún er ótrúleg. Ég næ því bara ekki hvernig menn geta ímyndað sér það sem þeir segja um afskriftasjóðinn. Hv. þm. Magnús Orri Schram sagði að afskriftasjóðurinn væri takmörkuð auðlind. Afskriftasjóðurinn er ekki einu sinni eign. Afskriftasjóðurinn er hvorki takmörkuð auðlind né eign. Afskriftasjóður er til að mæta töpuðum útlánum. Þegar menn segja að verið sé að afskrifa hjá fyrirtækjum í stórum stíl, þá er eins og sé verið að gefa þeim eitthvað. Það er yfirleitt ekki afskrifað hjá fyrirtækjunum nema þau séu gjaldþrota. Þá eru hluthafarnir, eigendurnir, búnir að tala öllu sínu. Það gerist ekki sisvona að þeim sé bara sagt: Nú fellum við niður skuldirnar ykkar, þið eruð skuldlausir frá og með deginum í dag, og bara líði ykkur vel. Nei. Fyrirtækið er tekið af þeim. Það er hirt af þeim. Ég nefni bara nokkur fræg gjaldþrot eins og FL Group og þar sem fóru sko bara ekki einhverjar milljónir, heldur tugir milljarða. Eigendur þess fyrirtækis, þeir eiga ekki krónu í dag, ekki í því fyrirtæki, þeir eru búnir að tapa öllu sínu. Þannig að menn tala um þetta eins og sé verið að gefa einhverjum eitthvað.

Það hefur komið fram að fjármálastofnanir voru búnar að lána hingað til Íslands 12 þúsund milljarða — það eru 12 milljón milljónir — alveg ótrúleg tala, þetta eru 40 milljónir á hvern einasta Íslending. Mér finnst vera mikil ábyrgð hjá þeim sem lánuðu þessa peninga í vafasamar fjárfestingar. Þessir peningar stoppuðu ekkert á Íslandi, fóru beint aftur til útlanda og í fjárfestingar þar. Það eru þessir peningar sem við erum búin að afskrifa um helming og það er helmingur afskriftasjóður. Er það eign? Nei, þetta er til að mæta tapi á FL Group og öllum þessum fyrirtækjum sem menn voru að lána í stórum stíl um allan heim og við lesum um nánast á hverjum einasta degi, einhverjar risatölur sem er verið að afskrifa og hluthafarnir tapa öllu sínu o.s.frv. Það er ekki eins og sé verið að gefa eitt eða neitt. Þetta er ekki eign. Þetta er bara tapað, mun aldrei innheimtast og það getur ekki nokkur einasti maður innheimt þetta, vegna þess að eignin er ekki til. Þannig að ég bara skil ekki þessa umræðu um að þetta sé einhver takmörkuð auðlind eða einhver eign eða eitthvað svoleiðis, ég bara skil það ekki.

Þetta þingmál byggir eiginlega á þessari hugmynd, að menn geti bara tekið þessa eign og dreift henni til almennings eins og jólasveinninn og bara gefið öllum 20%. Segjum svo, sem hefur reyndar ekki komið fram og ég spurði einmitt menn frá Seðlabanka, í félagsmálanefnd í morgun, hvort þeir geti aflað upplýsinga um það hvað afskriftir af íbúðarhúsnæði væru miklar í bönkunum. Það liggur ekki einu sinni fyrir. Reyndar skiptir það ekki máli hjá Kaupþingi og Glitni vegna þess að eigendurnir eiga Kaupþing, þá skiptir ekki eins miklu máli hvernig afskriftirnar eru nákvæmlega. En ég get fullvissað hv. þingmenn um það að kröfuhafarnir eru ekkert að gefa Íslendingum peninga, þeir ætla ekkert að fara að gefa Íslendingum eftir lán sem þeir skulda, því það eru þeir sem áttu víst að gefa þessa peninga, það er jólasveinninn. Þetta er ekki eign, þetta er bara tapað fé. Fyrirtækin sem tóku lán eins og FL Group sem keypti flugfélag í Bandaríkjunum og varð einn stærsti hluthafinn þar, tók til þess lán. Og svo féllu hlutabréfin í verði og lánin hækkuðu. Þetta varð bara dúndurtap. Það eru engir peningar sem hægt er að ná þarna í. Þeir peningar sem fóru í þessi lán eru bara tapaðir. Þeir sem lánuðu þeim, þeir eru búnir að tapa, bara afskrifa. Og það heitir afskriftasjóður. Þetta er ekki eign. Bara til að taka enn einu sinni fram — þetta er ekki eign — og hvað þá auðlind. Það er mjög dapurlegt að menn skuli hafa lánað í svona áhættusamar fjárfestingar. Það er dapurlegt fyrir þá sem lánuðu það, þ.e. þýska banka og alls konar fólk, vogunarsjóði og annað slíkt sem keyptu skuldabréf.

Svo hafa menn talað um vondu fjármagnseigendurna. Það var nú aðallega hv. þm. Þór Saari sem talaði um vondu fjármagnseigendurna. Nú er það þannig að það getur enginn tekið lán nema einhver annar hafi lagt fyrir. Það er mjög einfalt. Það getur enginn tekið lán nema einhver annar hafi lagt fyrir. Það verður einhver að spara. Íslendingar hafa farið þá leið í áratugi að taka lán í útlöndum hjá erlendum sparifjáreigendum, láta útlendinga spara og njóta lífsins hér á Íslandi, eyða um efni fram og borga vexti til útlanda. Þetta erum við búin að gera í áratugi og gerðum það sérstaklega glæsilega árið 2007. Þannig að Íslendingar hafa alltaf lagt áherslu á skuldara. Hér er verið að tala um skuldara. Það er ekki talað um sparifjáreigendur, það er ekki talað um sparifjáreigendur sem töpuðu núna í verðbólgunni. Ég hef ekki heyrt einn einasta mann tala um þá sem borguðu skatta, sem fengu 10% vexti í 18% verðbólgu, voru að tapa, en borguðu 1% skatt í fjármagnstekjuskatt af tapinu. Ég hef ekki heyrt einn einasta nefna þessa stöðu og vorkenna sparifjáreigendunum, sem þó standa undir þessu. Reyndar er það svo að stærsti sparifjáreigandinn í landinu eru lífeyrissjóðir, þar sem er þvingaður skyldusparnaður allra landsmanna. Þar eru menn jafnvel að tala um að skerða verðtryggingu og annað slíkt og átta sig ekki á því að það fer beint í gegn. Til hverra skyldi það nú fara beint í gegn? Til lífeyrisþega. Það eru breiðu bökin sem eiga að standa undir þessu. Þeir mundu strax finna fyrir því ef verðtryggingin yrði afnumin. Þeir mundu strax finna fyrir því ef ætti að afskrifa eitthvað hjá lífeyrissjóðunum, vegna þess að þeir eru gerðir upp á hverju einasta ári. Og það þarf bara að skerða lífeyrinn hjá gömlu fólki, öryrkjum og öðrum slíkum. Það getur vel verið að það séu breiðu bökin sem menn eru búnir að finna til þess að bæta skuldastöðu heimilanna og fyrirtækjanna. Þannig að mér finnst þessi umræða öll vera ótrúleg.

Þessi umræða gæti átt rétt á sér ef hér væri allsherjarhrun. Það er ekki allsherjarhrun, sem betur fer. Kannanir sýna að það eru 20% heimila sem eru í vanda, 10% eru í miklum vanda. Það eru 20% fyrirtækja sem eru í vanda, en það segir okkur líka það að 80% af heimilum eru ekki í vanda, sem betur fer, því þau munu þá standa undir því að hjálpa hinum, þessum sem eru í vanda. Það eru 80% fyrirtækja sem ekki eru í vanda. Þau munu hjálpa okkur til að hjálpa hinum, sem betur fer. Þannig að það er ekkert neitt allsherjarhrun í vændum, sem betur fer.

Þetta er nú eiginlega sama ræðan og ég hélt þegar þetta var síðast rætt og mér finnst leiðinlegt ef ég er farinn að endurtaka mig og ég er þreyttur á því, en mér finnst þetta nauðsynlegt, vegna þess að fólk talar eins og afskriftasjóðurinn sé einhver eign og sumir tala jafnvel um að hann sé auðlind. Maður er bara alveg gáttaður.