138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:14]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði þá er þetta í þriðja skipti sem við ræðum þetta þingmál og þetta er í þriðja skipti sem ég heyri ræðu hv. þingmanns. Ég verð að segja að það sem hefur einkennt allar þessar ræður er skilningsleysi hans á því hvað þessi tillaga fjallar um — algjört skilningsleysi. Ég ætla svo sem ekkert að fara að reyna að berja höfðinu við steininn, því ég held að það liggi algjörlega ljóst fyrir að Pétur Blöndal ætlar sér ekki að skilja þessa tillögu og mun væntanlega aldrei skilja hana.

Hins vegar, bara svo í framhaldi af því að talað var um um „aumingja fjármagnseigendurna“ og þá sem áttu allt stofnféð, þá geri ég ráð fyrir að hv. þingmaður hafi verið einn af þeim sem samþykktu neyðarlögin, þar sem var einmitt verið að hugsa mjög mikið um þessa aumingja fjármagnseigendur og þar sem forgangsröðuninni var breytt varðandi innstæðueigendur. Ég veit ekki betur en hv. þingmaður hafi líka verið stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar sem stóð að því að dæla 200 milljörðum inn í peningamarkaðssjóðina, enn á ný af því menn höfðu svo miklar áhyggjur af aumingja fjármagnseigendunum. Ég tel því að það hljóti að vera kominn sá tími, sem betur fer sér maður að það er orðinn aukinn skilningur hjá alla vega öðrum þeim ríkisstjórnarflokki sem var í þáverandi ríkisstjórn og hinum stjórnarflokknum á því að það er núna kominn tími til þess að gera eitthvað fyrir skuldara. Við framsóknarmenn höfum fagnað því að kominn sé þessi aukni skilningur, en við teljum að tillögur ríkisstjórnarinnar gangi alls ekki nógu langt. Þess vegna leggjum við enn á ný fram tillögu okkar í þriðja skiptið.