138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:31]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með það þolgæði sem Framsóknarflokkurinn sýnir með því að leggja þessa tillögu fram á nýjan leik. Mín liðveisla við þessa tillögu, þótt í litlu væri, hefur nú farið fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, en ég gerði tilraun til þess í netmiðli að taka undir þessar hugmyndir. Að vísu var hugmynd mín sú að niðurfellingin, þessi 20% niðurfelling skulda, gilti aðeins upp að vissri hámarksupphæð, sem ég man ekki hver var tiltekin á bilinu 12–16 milljónir minnir mig, að skuldaniðurfelling yrði ekki meiri en nemur þeirri upphæð.

Ég er ánægður með að þessi tillaga skuli vera komin fram á nýjan leik og mér finnst hún koma fram á réttum tíma, því nú hefur félagsmálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lagt fram sínar tillögur til að taka á þeim mikla vanda sem fjölskyldur standa andspænis nú um stundir. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að reyna að samræma þessar tillögur á einhvern hátt, því það er góð hugsun á bak við þær báðar. Ég vil hvetja nefndarmenn sem taka við þessum tillögum og fara yfir þær með jákvæðum huga og reyna að nýta úr þeim báðum það sem nýtilegast er.