138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég tel að þessi þingsályktunartillaga sé ágætt merki um þá ábyrgu stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sýnt hér á Alþingi. Það er ekki sjálfgefið að stjórnarandstöðuflokkar setji fram útfærðar hugmyndir um það hvernig eigi að leysa vandamál. Það er þekkt og þarf ekki að fara langt aftur í þingsöguna til að finna stjórnarflokka sem hafa náð sérfræðigetu í því að vera bara á móti og gagnrýna og hafa lítið lagt uppbyggilegt til mála. Ég tel að það sé heilmikil gæfa fólgin í því að stjórnarandstaðan geri hluti eins og Framsóknarflokkurinn hefur verið að gera hér í dag. Þetta er mikilvægt framlag. Menn þurfa ekki endilega að vera sammála öllu sem hér er sagt, en þetta dýpkar og bætir umræðuna um þann stóra vanda sem um er að ræða og að mínu mati koma fram í þessu plaggi sjónarmið sem er mjög vert að taka tillit til.

Við sjálfstæðismenn lögðum það til í efnahagstillögum okkar að settur yrði af stað þverpólitískur hópur til þess einmitt að skoða hugmyndir varðandi niðurfærslu lána á höfuðstól. Við höfum aftur á móti ekki viljað ganga svo langt að segja að það eigi að keyra niður eða færa niður öll lán, en við höfum talið greinilegt að það þyrfti að skoða þessa hluti með mjög opnum hug og að það þyrfti að gera vegna þess hversu viðkvæmt málið væri, þannig að allir stjórnmálaflokkarnir kæmu saman að því máli. Þetta er þannig mál að ef úr því verða gríðarlegar og miklar pólitískar deilur, þá getur það verið mjög hættulegt og eldfimt inn í samfélagið. Það er þekkt í veraldarsögunni, ekki bara úr okkar sögu, heldur geta menn farið langt aftur, þar sem akkúrat deilur um niðurfellingu skulda hafa verið mjög hatrammar og nærri sett heilu samfélögin á hliðina. Það eru mörg dæmi sem óþarfi er að rekja hér í þessari ræðu. Sá vandi sem við erum að fást við er þess eðlis að við erum ekki fyrsta þjóðin sem stendur frammi fyrir slíku. Þótt stór sé, þá eru margar þjóðir sem hafa þurft að fást við svona vandamál og það er hægt að finna vísbendingar og leiðbeiningar víða frá um það hvernig best er að höndla þessi mál.

Það sem ég held að væri kannski áhugaverðast að velta aðeins fyrir sér út af umræðunni um verðtryggingu er að þar sem ekki er um að ræða verðtryggingu, þar sem verður hrun svipað því sem hér hefur orðið, þá gerist það auðvitað að rentuberandi eignir eyðast upp. Eftir að hrun hefur orðið á hlutabréfamarkaði og skuldabréfamarkaði og verðbólga fylgir í kjölfarið, þá étur verðbólgan upp töluvert af þeim skuldum sem höfðu safnast upp, léttir þar með á skuldurunum, en þeir sem voru lánveitendur tapa peningunum. Með öðrum orðum, rentuberandi eignir eyðast. Það eru sterk rök fyrir því að ekki sé sanngjarnt né heldur skynsamlegt að t.d. þeir sem tekið hafa lán beri allan hallann af því þegar atburðir verða eins og hér hafa orðið, að menn verði að dreifa þeim byrðum á einhvern réttlátan og skynsamlegan hátt.

Það er nefnilega alveg þekkt að verðbólga hafi étið upp skuldir og menn hafi gert það í raun og veru viljandi. Þegar Bretton Woods-kerfið brást eða gaf upp öndina, þá var það m.a. vegna þess að Bandaríkjamenn fóru af gullfæti, hófu að prenta peninga umfram það sem þeir höfðu gull fyrir, m.a. til þess að borga stríðsrekstur sinn í Víetnam og mikinn hallarekstur á ríkissjóði. Þar með veiktist dollarinn og þar með lækkuðu skuldir Bandaríkjamanna. Þetta var vísvitandi aðgerð, með öðrum orðum að láta skuldirnar fara niður með slíkri aðgerð. Ég er reyndar sannfærður um að þegar menn horfa á hallann á ríkissjóði Bandaríkjanna núna og sjá þá miklu skuldasöfnun sem þar er, að það muni gerast á næstu missirum að dollarinn muni gefa eftir, það sama muni gerast og gerðist á sínum tíma þegar Bretton Woods-kerfið gaf eftir, að kölluð verði fram verðbólga í hagkerfi heimsins og hún muni éta upp skuldir. Þannig að það er ekkert óeðlilegt að við ræðum þessa hluti hérna, vegna þess hversu víðfeðm og algeng og almenn verðtryggingin er.

Sama á við auðvitað um gengistryggð lán til húsnæðiskaupa. Það hlýtur að vera eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvernig eigi á að halda, þegar jafngríðarlegur forsendubrestur hefur orðið eins og varð þegar gengi íslensku krónunnar hreint og beint hrundi. Hér er ekki um að ræða einhverja gengislækkun eða gengisaðlögun, hér er um að ræða gengishrun. Staða íslensku krónunnar er fyrir neðan það sem menn geta talið að sé eðlilegt jafnvægisgengi miðað við framleiðslugetu og framleiðsluþætti þjóðarinnar.

Þetta er allt saman eðlilegt að hafa í huga. En um leið verðum við líka að skilja að það er takmarkað hvað ríkissjóður getur gert í sínum málum. Það eru takmörk fyrir því úr hversu miklum fjármunum við höfum að spila. Þess vegna hefur það verið stefna okkar sjálfstæðismanna að við höfum talið nauðsynlegt að horfa á þetta kannski meira takmarkað en ekki jafnalmennt og hér er lagt til. Um það geta menn síðan deilt hvað sé skynsamlegt í því og hvað ekki. Þess vegna höfum við lagt það til, sem ég held að geti samrýmst mjög vel þeim hugmyndum sem hér eru, að skipuð verði nefnd frá öllum flokkunum til að skoða þetta mál vel ofan í kjölinn, þannig að við getum hnikað því eitthvað áfram.

Það er mjög mikilvægt að pólitísk samstaða sé um að fá lausn í þessu viðkvæma deilumáli. Við eigum að læra af þeim þjóðfélögum sem hafa farið eins og ég segi allt að því á hliðina vegna deilna um niðurfærslu skulda. Þetta er það sem mér finnst skipta máli.

Enn og aftur vil ég þakka Framsóknarflokknum fyrir þessar tillögur. Ég vil meina að þær séu gagnlegar fyrir okkur og ég á von á því, bæði frá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og stjórnarandstöðunni, að við munum halda áfram á næstu vikum og missirum að leggja fram tillögur sem geta bætt og lagað þann vanda sem er uppi núna. Ég verð að segja að það hefur valdið mér vonbrigðum í umræðum eins og um þessa tillögu að ég hefði viljað fá ítarlegri og lengri umræðu um þetta mál, hefði viljað gjarnan að fleiri þingmenn hefðu komið í þessa umræðu. Ég tel að þetta mál sé meira pressandi á okkur núna en t.d. það sem við fluttum aðeins fram fyrir okkur í tíma, Icesave-málið. Þetta er það sem brennur á fjölskyldum í landinu. Þetta er það sem við verðum að leysa. Og þetta er það sem við getum leyst, hvort sem við erum búin að ganga frá Icesave-samkomulaginu eða ekki. Þetta er það sem við þurfum að klára. Það eru þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga sem bíða eftir því að Alþingi komi með lausn í þessu máli. Það er það sem stendur upp á okkur og við verðum að gera.