138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna ummælum hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um að viðskiptanefnd geti afgreitt þetta mál vonandi fljótt og vel. Varðandi það hvernig efnahags- og viðskiptaráðuneytið fylgist með þróun og tilurð tilskipana Evrópusambandsins á sviði ráðuneytisins, þá er því til að svara að það er talsvert stór þáttur í starfi ráðuneytisins og af skiljanlegum ástæðum, vegna þess að það hvílir á þessu ráðuneyti líklega í ríkari mæli en flestum öðrum, að kannski utanríkisráðuneytinu undanskildu, að innleiða ýmsar tilskipanir, enda er megnið af okkar viðskiptalöggjöf beint eða óbeint upprunnið, að minnsta kosti, hjá Evrópusambandinu. Vegna þessa höfum við m.a. sérstakan starfsmann í Brussel, Hrein Hrafnkelsson, sem er í hálfu starfi fyrir þetta ráðuneyti og hálfu fyrir annað ráðuneyti, og einnig sinna þeir starfsmenn sem vinna á Íslandi þessum málaflokki. Það er talsvert stór hluti þeirrar vinnu sem fram fer í ráðuneytinu.

Það er með þetta eins og margt annað að ef menn hefðu meira fé og meiri mannafla væri hægt að gera betur, en ég tel því miður í ljósi þess hvernig ástandið er í ríkisfjármálum að ekki verði hægt að fjölga starfsfólki og leggja með þeim hætti aukinn kraft í þessa vinnu. Hins vegar mun ráðuneytið gera hvað það getur með þeim starfskröftum sem það hefur. Það er auðvitað rétt að hafa í huga í þessu samhengi að það mun talsvert breyta stöðu Íslands og aðkomu að þessum tilskipunum ef við verðum fullgildir meðlimir í Evrópusambandinu, en það skýrist nú ekki alveg strax.