138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

56. mál
[17:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir framsögu og þetta mál. Ég held ég verði að segja fyrir mína parta að ég hlakka raunverulega til þess að takast á við það í viðskiptanefnd. Ólíkt fyrra máli sem ráðherrann flutti hérna þá er þetta svolítið meira áhugavert, sérstaklega í ljósi þess sem við höfum verið að skoða í tengslum við hrunið og mikilvægi þess að bankastofnanir geri kröfur til viðskiptamanna sinna og þeir kanni einmitt, eins og hér segir, áreiðanleika upplýsinga um viðkomandi viðskiptamann. Þetta er eitthvað sem ég tel að hafi ekki verið nægilega gott hjá íslenskum bankastofnunum. Mér skilst að það hafi nú verið eitt af því sem hafi kannski komið íslenskum fyrirtækjum á óvart í hruninu þegar þeir leituðu til norskra bankastofnana hvað kröfur voru einmitt miklar þar um að aflað væri upplýsinga um viðkomandi viðskiptamann. Þegar við vorum að skoða starfsumhverfi bankastofnana þá var eitt sem við í viðskiptanefnd rákumst á að hjá DnB í NOR var ein af spurningunum sem þeir t.d. spyrja þegar þeir afla sér upplýsinga um viðskiptamann hvort viðkomandi óski eftir því að peningar séu millifærðir inn á aflandseyjar. Ég held að ef íslenskar bankastofnanir hefðu velt fyrir sér hvort það væri eðlilegt að eiga viðskipti við einhverja sem vildu að peningarnir sínir færu inn á aflandseyjar, þá værum við kannski ekki akkúrat í jafnslæmum málum og við erum í dag. Þannig að ég (Forseti hringir.) fagna mjög að búið sé að leggja þetta mál fram.