138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[17:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það liggi alveg fyrir þar sem ég er nú einn af flutningsmönnum þessarar tillögu að ég sé fylgjandi henni, enda er ég ekki vön að setja nafn mitt við eitthvað sem ég er ekki sammála, þannig að það mátti kannski greina það í spurningum mínum til hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Ég verð hins vegar að viðurkenna að þegar ég heyrði fyrst af þessari ákvörðun hjá hæstv. umhverfisráðherra var ég alveg tilbúin til að trúa því sem ráðherrann sagði, að hún teldi að þetta væri spurning um góða stjórnsýslu. Síðan sat ég fund með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur og fleiri þingmönnum Suðurkjördæmis, þar sem skipulagsstjóri fór í gegnum að hann sæi ekki alveg fyrir sér hvernig í ósköpunum hann ætti að geta farið í svona sameiginlegt mat. Gott og vel. Ég var samt tilbúin til að trúa því að ráðherrann væri að reyna að vinna vinnuna sína vel. Það var ekki fyrr en ég heyrði hana sjálfa tala í viðtali hjá Agli Helgasyni, þar sem var verið að ræða þetta, þar sem allt virtist fyrst og fremst ganga út á það að tala um hvað álver og virkjanir væru slæm fyrir Ísland og þetta væri svo vont allt saman.

Ég mundi því gjarnan vilja heyra enn frekar frá 1. flutningsmanni þessarar tillögu: Er það ekki rétt að Suðurnesjamenn hafa einmitt verið að leggja mjög mikla vinnu á sig, alveg frá því herstöðin lokaði? Og ég ítreka það, hvað nákvæmlega annað er það sem er undir varðandi Suðvesturlínuna? Erum við ekki að tala um allt byggðarlagið á Suðurnesjum?

Hæstv. iðnaðarráðherra var áðan að tala um mikla aukningu ferðamanna. Er ferðaþjónusta ekki lykilatvinnugrein líka á Suðurnesjum? Þarf ferðaþjónustan ekki líka rafmagn?

Þannig að það væri (Forseti hringir.) áhugavert að heyra enn frekar frá þingmanninum sem þekkir nú vel til á svæðinu, hvað nákvæmlega er það annað sem Suðurnesjamenn hafa verið að gera?