138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[17:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um atvinnupólitíkina, af því segja má að ákvörðun umhverfisráðherra sem snýr að Suðvesturlínu hafi leitt til mikillar atvinnupólitískrar umræðu sem á sér augljósar skýringar, sem er ástandið í þjóðfélaginu, óþreyja og þorsti okkar eftir nýfjárfestingum og framkvæmdum sem koma hlutunum á hreyfingu.

Í fyrsta lagi aðeins um atvinnupólitíkina. Það sem ég nefndi t.d. á þingi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum á laugardaginn var að auðvitað hafa allir flokkar, hver með sínum hætti, atvinnupólitískar áherslur. Sumir vilja verja orkufjárfestingum og framkvæmdum til annarra hluta en áliðnaðar og það er þó heiðarleg afstaða sem liggur fyrir eins og gerir í tilfelli VG. Það er annað mál hins vegar og ég tengi það ekki þessari ákvörðun umhverfisráðherra, hún gerir hana á sínum forsendum og faglegum og útskýrir það sjálf, hæstv. ráðherrann. En hins vegar var ákvörðunin tekin á tíma sem er mjög viðkvæmur og margt undir og auðvitað vitum við að mestu skiptir og öllu í því að framkvæmdir í Helguvík gangi eftir, gagnaver Verne Holdings upp á Vallarheiði, Ásbrú, gangi eftir, fái sín 25 megavött afhent, það er að HS Orku og Orkuveitunni takist að fjármagna framkvæmdirnar nú í haust. Það skiptir öllu máli.

Þegar þessi ákvörðun var tekin kölluðum við þingmenn Suðurkjördæmis skipulagsstjóra á okkar fund. Hann fór yfir það að þetta þyrfti ekki að hafa nema tveggja til þriggja mánaða tafir á línuframkvæmdunum í för með sér. Landsnet ráðgerir að sækja um framkvæmdaleyfið í upphafi næsta árs, þannig að það þarf ekki að tefja verkefnið sem slíkt. Þar skiptir fjármögnun orkuframkvæmdanna öllu máli. Núna er unnið að gerð samninga sem þessu tengjast. Samanlögð fjárfesting vegna þessara línulagna nemur um 30 milljörðum kr. og Landsnet telur að fjármögnun framkvæmdanna hafi verið tryggð að miklu leyti. Fyrirtækið undirbýr nú skuldabréfaútboð og mun síðar taka upp viðræður við erlendar fjármálastofnanir um fjármögnun á flutningsmannvirkjunum sjálfum.

Í öðru lagi snýr umræðan um Suðvesturlínu að miklu fleiri hlutum en álveri í Helguvík og skýrir líka að ákvörðun ráðherra er að sjálfsögðu á miklu breiðari forsendum og snýr ekki að því verkefni einu og sér. Þó að ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu hafi valdið mér vonbrigðum, komið mér á óvart, og valdið uppnámi og deilum núna, þá er engin ástæða til að gera meira úr því en efni standa til. Það gæti tafið línulagnir um allt að tvo mánuði. Vissulega lengri tíma eins og skipulagsstjóri nefndi, tvö til þrjú ár, ef framkvæmdin yrði send í heildarmat, en þá liti málið allt öðruvísi út og væri vissulega orðið grafalvarlegt, af því þetta snýst ekki bara um framkvæmdirnar í Helguvík, heldur raforkunýtingu á Reykjanesinu öllu og raforkuöryggi á því, í raun og veru á öllu landsnetinu og er þess vegna miklu stærra mál að þessu leyti.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdinni verði skipt í fimm áfanga. Þetta er gífurlega mikil framkvæmd sem kostar yfir 30 milljarða kr. á verðlagi í janúar 2009 og mjög miklir almannahagsmunir undir. Þess vegna efast ég ekkert um að skipulagsstjóri vinni hratt í sínu svari og þetta valdi ekki meiri töfum en að algjöru lágmarki. Ég efast ekkert um að það gangi eftir, en hef enga dul dregið á það að ég hef stutt fyrirhugaðar framkvæmdir í Helguvík í mörg ár, því það tengist óhjákvæmilega þessari heitu hápólitísku umræðu sem er um atvinnumálin núna. Ég hef stutt þá framkvæmd lengi og m.a. síðasta vetur þegar við unnum hörðum höndum að því að ljúka gerð á fjárfestingarsamningi vegna álversins í Helguvík og samningurinn skipti sköpum upp á framgang á því verkefni. Alþingi afgreiddi hann í vor. Century Aluminium, sem er móðurfélag Norðuráls, hefur samið við þrjá erlenda banka um að fjármagna framkvæmdirnar. Því skiptir núna öllu máli að framkvæmdin gangi að fullu fram, að orkufyrirtækjunum takist að fjármagna verkefni sitt.

Ég er ekki viss um að allir viti að framkvæmdir eru löngu hafnar í Helguvík. Það er verið að reisa þar kerskála o.s.frv., það vantar í raun að setja framkvæmdirnar á fullt stig og að sjálfsögðu þarf að liggja fyrir allt sem snýr að línulögnum og raforkuflutningi. En fjármögnunin skiptir öllu máli. Við skulum alveg halda ró okkar og yfirvegun í þessari umræðu og standa saman um það að orkufyrirtækjunum okkar takist að fjármagna sig og það verði til þess að þetta fari á fleygiferð.

Fjölmörg önnur verkefni eru á teikniborðinu af hálfu stjórnvalda. Núna er gert ráð fyrir því að gerð fjárfestingarsamninga við Verne Holdings ljúki í þessari viku og einnig er gert ráð fyrir að hæstv. iðnaðarráðherra undirriti núna síðar í þessari viku samning og samkomulag við sveitarstjórnirnar í Þingeyjarsýslum um orkunýtinguna á Þeistareykjum, þannig að hægt sé að virkja þá orku af fullum krafti og koma henni í vinnu og verðmæti. Þá er iðnaðarráðherra að vinna að lagaramma um gerð fjárfestingarsamninga þannig að það verði gagnsærra og skýrara hvernig þeir fara fram.

Til að draga það alveg skýrt fram þá er verið að vinna að fjölmörgum aðgerðum sem megi verða til þess að orkunýtingin verði sú forsenda og aflvél endurreisnarsamfélagsins sem efni standa til. Við Íslendingar vitum það betur en nokkrir aðrir að endurnýjanlegar orkulindir eru sérstaða okkar og meginsóknarfæri til að fá hingað nauðsynlega erlenda fjárfestingu, fjárfestingu sem getur breytt samdrætti í vaxtarskeið og unnið bug á atvinnuleysi og framkvæmdafalli og framkvæmdahruni í byggingariðnaði og orkugeiranum. Þar skiptir stöðugleikasáttmálinn meginmáli. Það er verið að ræða við lífeyrissjóðina núna um fjármögnun þeirra við Búðarhálsvirkjun sem liggur til grundvallar stækkun álversins í Straumsvík. Gangi þessar tvær framkvæmdir fram, bara til að varpa ljósi á stærð þessara orkuframkvæmda í búskap okkar á næstunni, undirstrika stærðirnar, þá metur fjármálaráðuneytið það þannig í þjóðhagsspá sinni sem kom núna út fyrir stuttu, að stækkun álversins í Straumsvík og bygging álversins í Helguvík muni auka landsframleiðsluna um 4,2% á ári að raungildi og kosta yfir 400 milljarða á tímabilinu 2009–2015.

Ég undirstrika aftur, af því ég hef stuttan tíma og það er svo fjöldamargt sem væri gaman að geta nefnt í þeirri nokkuð breiðu umræðu um orkunýtingu sem þessi tillaga leiðir vissulega út í og er bara jákvætt í sjálfu sér, að það er ekkert nema jákvætt og ekkert nema eðlilegt að menn deili um það, í pólitík og á flokkspólitískum forsendum, hvernig við nýtum orkuna, hvort við nýtum hana til að byggja upp gagnaver, hvort við nýtum hana til að byggja upp álver, kísilverksmiðjur, leggjum áherslu á grænu stoðina undir hagkerfinu, sem m.a. felst í hátækniiðnaði á endurnýjanlegum orkulindum. Gott dæmi um það er bygging sem er hafin við verksmiðju Carbon Recycling International við Svartsengi og tekin var skóflustunga fyrir um liðna helgi. Þar verður útblæstri jarðvarmavera og álvera breytt í eldsneytið metanól. Það er því gríðarlega margt að gerast á þessu sviði og það er engin ein skoðun réttari en önnur um hvernig við nýtum orkuna.

En meginmálið með Helguvík er að um þetta náðist niðurstaða fyrir nokkrum missirum. Framkvæmdir eru farnar af stað. Alþingi afgreiddi málið fyrir sína parta með fjárfestingarsamningi síðasta vor. Þess vegna skiptir svo miklu máli að greiða götu framkvæmdanna sem núna eru á nokkuð viðkvæmu stigi og þar skiptir, eins og ég sagði áðan, mestu máli að Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku takist að fjármagna framkvæmdir sínar. Samningarnir sem þar liggja undir eru Hellisheiðarvirkjun, Hverahlíðarvirkjun, Gráuhnjúkar, Bitruvirkjun, Reykjanesvirkjun og svo Þeistareykir fyrir norðan, sem iðnaðarráðherra er að vinna að þar. Þannig að það er mjög margt sem er verið núna að vinna að og er á teikniborðinu. Suðvesturlína er sjálfstætt mál. Hæstv. ráðherra getur örugglega varpað skýrara ljósi á hvernig það mál stendur og hversu er langt þangað til skipulagsstjóri muni mögulega koma með úrskurð sinn. Þessi úrskurður olli vissulega pólitískum deilum og kom á óvart. En við skulum ekki gera meira úr því en efni standa til og varðveita samstöðuna um þetta verkefni og ekki tala niður möguleika orkufyrirtækjanna til að fjármagna þessar framkvæmdir, með því að segja að þetta hafi hleypt hlutunum í meira uppnám en það gerði.