138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:06]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn spurði nokkurra spurninga og það var alveg rétt hvernig hann dró saman kjarnann í minni ræðu, að ég er eindreginn stuðningsmaður framkvæmdanna í Helguvík og að sjálfsögðu þess að raforkukerfið á Reykjanesinu verði styrkt með þessum hætti sem Suðvesturlína er enda er það gífurlega mikil framkvæmd í sjálfu sér eins og ég nefndi áðan.

Hvaða varðar möguleikana til (Gripið fram í.) — við erum að því hérna í dag — til erlendra fjárfestinga hvað varðar verkefnaframkvæmdir, ef ég mat það rétt sem þingmaðurinn var að spyrja um, hvort einkaaðilar stofnuðu félög um virkjanirnar einnig eins og orkuframkvæmdirnar, (GBS: Að fjárfestar kæmu að ...) að fjárfestar kæmu að því með beinum hætti, þá held ég að það sé afskaplega heppilegt og sé bara til að breikka flóruna og efla stoðirnar undir þessu öllu saman. Það hefur verið ákveðinn veikleiki í okkar hröðu og miklu orkuframkvæmdum á síðustu árum hvað opinberir aðilar eru stórir í þessu og taka áhættuna að svo miklu leyti. Það hefur áhrif á lánshæfismat ríkis og sveitarfélaga o.s.frv. Ég held að það væri mjög heppilegt ef þeir sem eru að byggja orkunýtingarverin tækju líka áhættu, og að sjálfsögðu ágóðann þá ef um er að ræða, af virkjunum sjálfum. Ég held að það væri bara mjög heppilegt og alltaf undir þeim formerkjum að hið opinbera á auðlindirnar og leigir þær til ákveðins tíma á ákveðnum forsendum o.s.frv. Til dæmis væri miklu heppilegra og var rætt hérna í dag um stöðu Landsvirkjunar og Kárahnjúkavirkjun, sem verður að sjálfsögðu til þess að Landsvirkjun er mjög skuldsett fyrirtæki en á um leið þarna miklar fjárfestingar.

Hvað varðar orkuskattana og fjárfestingarsamningana. Nei, þeir hafa ekki áhrif á gerð þeirra af því að þeim er að ljúka við Verne, að sjálfsögðu löngu lokið við Helguvík, en þeir komu þessum geira að sjálfsögðu á óvart og hann bregst harkalega við enda er málið ekki útfært til fullnustu og hefur skiljanlega valdið ákveðinni truflun á þessu öllu saman.