138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:23]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem skiptir öllu máli í þessu samhengi er það sem er verið að vinna að og ég nefndi áðan. Ég ætla að vitna beint í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra sem hún flutti í þinginu 8. október í utandagskrárumræðu og segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægi nýrra fjárfestinga í íslensku atvinnulífi er algjörlega óumdeilt. Þess vegna er nú unnið að gerð frumvarps um rammalöggjöf um ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga sem leysir af hólmi þunglamalegt og ógagnsætt ferli fjárfestingarsamninga við einstök fyrirtæki. Skýr lagarammi um ívilnanir mun bæta samkeppnisstöðu okkar og auðvelda alla kynningu á Íslandi sem fjárfestingarkosti.“

Þetta vegur þó miklu, miklu þyngra. Þetta er grundvallarmál til að gera Ísland að miklu betri og skýrari fjárfestingarkosti fyrir erlenda aðila. Það sem er verið að gera á vettvangi stjórnvalda núna, fjöldamargt eins og ég nefndi áðan, verður til þess að draga hingað mjög áhugasama erlenda fjárfesta á næstu vikum og mánuðum.