138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:59]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að segja að sú ályktun sem liggur hérna fyrir er frekja. Mig langar til að þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að gjaldfella orðið hryðjuverk ærlega og rækilega í dag.

Mig langar til að tala um kreddutrú og bókstafstrú sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á í ræðu sinni áðan og vísaði þar til vinstri grænna og hugmynda um umhverfisvernd og sjálfbærni. Ég veit ekki betur en við séum akkúrat núna að súpa seyðið af kreddutrú og óbilandi trú á eina hugmynd, virkjanir og stóriðju. Mig langar að tala aðeins um Kárahnjúkavirkjun og þá staðreynd sem fróðari menn en ég hafa komist að niðurstöðu um að olli þenslunni sem við erum núna að súpa seyðið af að töluverðu ef ekki öllu leyti. Jafnvel Morgunblaðið komst að þessari niðurstöðu.

Af hverju ættum við núna að fara í aðra slíka vegferð? (REÁ: Það er í þjóðhagsspánni.) Hafa talnaspekingar á borð við hv. þm. Illuga Gunnarsson og hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson leitt hugann að því hvort íslenskt hagkerfi þoli yfir höfuð slíkar framkvæmdir? Nánast allt í ræðum hv. þm. Árna Johnsens og hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hefði getað verið klippt út úr ræðum sem hér voru haldnar áður en Kárahnjúkavirkjun kom til framkvæmda. Mig langar til að stinga upp á því að við reynum að læra af reynslunni.