138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:01]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svarað stutt því að andsvarið var ekki varðandi ræðu mína heldur fyrri ræður í kvöld og eru nýmæli að slíkt sé tekið upp en ég er áhugalaus í þeim efnum.

Hv. þingmaður kemur eins og fótatak í fjarska og tiplar á þúfunum og minnir á eitt og annað sem er ekki til umræðu í kvöld og ekki í andsvari. Það er allt gott og gilt um það að segja en það sem við leggjum áherslu á sem stöndum að þessari tillögu er að við lifum í nútímanum, núna, núna í dag og næstu missiri og vinnum til árangurs í þeim efnum. Það eru ekki margir möguleikar sem liggja fyrir. Við verðum að spila úr því sem við höfum á hendi. Við verðum að prjóna úr þeim lopa sem er tilbúinn, vinna úr þeim tækifærum sem liggja fyrir en ekki lifa í einhverjum draumaheimi.