138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kallar hér fram um að það hafi þurft frekari upplýsingar. Og hvaða upplýsingar vantaði? Upplýsingar um það hvort þeim aðila sem málið varðaði fannst að það ætti að fara fram sameiginlegt umhverfismat á þessum framkvæmdum. Það var niðurstaða fundar okkar þingmanna Suðurkjördæmis með þeim aðilum sem við kölluðum á okkar fund. Ráðherra sá sér ekki fært að mæta á þann fund né nokkur úr ráðuneytinu og lítilsvirti þar með okkur þingmenn Suðurkjördæmis að mínu mati. Ég kalla einfaldlega eftir því, af því að ég veit að hæstv. ráðherra mun halda ræðu hér á eftir, hvers vegna því fundarboði var ekki sinnt án þess að láta einu sinni vita af forföllum.

Í dag liggur fyrir, þar sem hv. þingmaður óskaði eftir því í fyrra andsvari sínu að ég færi yfir það hvaðan orkan ætti að koma, orkan er til. (GLG: Hvar?) Orkan er til. Hins vegar erum við hér að ræða stjórnsýsluákvörðun ráðherra. (Forseti hringir.) Hún á ekki að blanda því í úrskurð sinn varðandi þessa línu hvort einhver orka sé til eða ekki. Það var verið að tala hér um (Forseti hringir.) vandaða stjórnsýsluhætti. Það kemur málinu einfaldlega ekki við í þessu sambandi.