138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að menn geti með fullum rétti verið á móti ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra en það er öldungis fráleitt að halda því fram eins og mér finnst liggja undir í þessari umræðu að hæstv. ráðherra hafi vitandi vits brotið lög. Það er alveg fráleitt að halda því fram.

Sömuleiðis verð ég að nota þetta tækifæri til að segja það líka að sennilega hafa fáir, a.m.k. fáir í stjórnarliðinu, lagt jafnmikið undir og ég sem hér stend til að berjast fyrir tilteknum framkvæmdum sem fyrirtækið Norðurál hefur staðið fyrir. Ég verð hins vegar að segja að ég er mjög ósáttur við það hvernig það fyrirtæki hefur t.d. tekið þátt í auglýsingaherferð sem beinist gegn hæstv. umhverfisráðherra. Ef þetta fyrirtæki er þeirrar skoðunar að á sér hafi verið brotin lög þá hefur það sinn rétt til að láta á það reyna fyrir dómstólum og ætti að gera það.

Aftur á móti tel ég að allt of mikið sé gert úr þessum úrskurði hæstv. umhverfisráðherra. Ég vil benda á að ef málið liggur eins og hv. ræðumaður Unnur Brá Konráðsdóttir telur að það liggi þá er náttúrlega alveg einboðið hvernig hún telur sömuleiðis að hinn endanlegi úrskurður hæstv. umhverfisráðherra verði. Ef svo fer liggur það fyrir að Landsnet mun bak jólum sækja um framkvæmdaleyfi og að framkvæmdir við Suðvesturlínu hefjast næsta sumar. Þessar framkvæmdir kosta samtals þegar allt er talið 30 milljarða kr. og það liggur fyrir að Landsnet er búið að fjármagna þær framkvæmdir sem þarf að ráðast í á næsta ári. Þetta nefni ég hér vegna þess að hv. þingmaður spurði eftir stuðningi ríkisstjórnarinnar við stöðugleikasáttmálann. Það kemur t.d. fram í því og ég er þeirrar skoðunar að ef hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér um það hvernig forsendur málsins eru og þar með hvernig hinn endanlegi úrskurður verður þá mun þetta ekki tefja málið neitt.