138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona svo sannarlega að úrskurður umhverfisráðherra hafi ekki tefjandi áhrif á þetta mál en ég hef hins vegar miklar áhyggjur eins og ég lýsti í fyrri ræðu minni af því að svo verði. Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra staðfestir að staðið verði við stöðugleikasáttmálann að þessu leyti. Það er áfangi út af fyrir sig. Það er gott að það er komið fram í þessari umræðu vegna þess að maður var kannski orðinn svolítið ringlaður á því hvort það stæði til eða ekki.

Ég tel að ríkisstjórn Íslands beri þá ábyrgð og ég er þess fullviss að þeir hæstv. ráðherrar sem hér eru í dag, frú forseti, ætla sér það að byggja upp íslenskan efnahag á þann hátt að fjármögnun framkvæmda, m.a. Suðvesturlína, takist. Það liggur allt undir. Að sjálfsögðu verður fyrirgreiðsla í erlendum lánafyrirtækjum erfiðari ef það er algerlega ljóst að ekki ríkir traust til íslenskra stjórnvalda. Það liggur einfaldlega fyrir. Það er augljóst þannig að það er verkefni ráðherranna eins og ég kom inn á í ræðu minni að róa að því öllum árum bæði hér innan lands og úti í heimi hver stefnan er, hvert skal stefnt. Um það snýst þetta. Þess vegna er, frú forseti, augljóst að ríkisstjórn Íslands verður að fullvissa þjóðina um að staðið verður við stöðugleikasáttmálann að því leyti að það verði greitt fyrir þeim framkvæmdum sem koma til með að skapa þúsundir starfa á Íslandi. Að sjálfsögðu þarf allt að vera innan ramma laga, ég hef aldrei sagt neitt annað. Að sjálfsögðu þarf að fara að lögum. Það þarf að fara að góðum stjórnsýsluháttum og það þarf að vera skýrt hvert skal stefnt, hvert á að fara og skýrt að menn styðji þjóðhagsspá sem þeir sjálfir hafa tekið þátt í að gefa út.