138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:05]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að mörgu leyti ágæta yfirferð og mundi gjarnan vilja að við hefðum til þess ráðrúm oftar í þingsal að skiptast á skoðunum með yfirveguðum hætti. Vegna þess að hann var að bera saman stöðu okkar og annarra landa þá er það svo að nú þegar eru Íslendingar miðað við höfðatölu sú þjóð í heiminum sem eyðir mestri orku. Við notum þrisvar sinnum meiri orku á mann en Bandaríkjamenn svo dæmi séu nefnd. 80% af þessari orku er vissulega umhverfisvæn eins og kallað er og fer til stóriðju.

Mig langar til að velta þeirri spurningu upp af því að ég er þeirrar trúar að þingmaðurinn sé að tala í einlægni um það að Ísland geti sent sterk skilaboð út í alþjóðasamfélagið. Gætum við verið sammála um það að Ísland geti orðið forusturíki og algerlega til fyrirmyndar á heimsvísu þannig að við mundum framleiða eldsneyti til að koma algerlega í staðinn fyrir allt jarðefnaeldsneyti á Íslandi? Að við gætum orðið fyrsta þjóðin í heimi til að verða sjálfbær þjóð um orku og óháð öllum öðrum um orku innan lands. Mér finnst þetta afar mikilvægt vegna þess að ef við værum tilbúin til að senda svona skilaboð út í alþjóðasamfélagið þverpólitískt þá værum við að taka okkur stöðu sem mundi vekja athygli og mundi gefa okkur ný sóknarfæri í okkar samskiptum við alþjóðasamfélagið.