138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal heils hugar taka undir það og styðja ráðherra í hverju því verkefni sem að spurningunni snýr og ég er henni algerlega sammála um að við eigum að reyna að móta okkur forustu á þessu sviði sem og öðrum þegar kemur að nýtingu orkuauðlinda. En ég sé ekki hvað það hefur með að gera að efla hér stóriðju samhliða því. Ég sé ekki að það hafi nokkuð með það að gera.

Ég held að það sé mjög lélegt, ef ég get orðað það svo, að vera með einhvern samanburð við höfðatölu vegna þess að við getum í svo margri iðnaðarframleiðslu og nýtingu náttúruauðlinda borið okkur saman við aðrar þjóðir þar sem framlag okkar er hreinlega núll af því að við eigum ekki þær náttúruauðlindir sem margar aðrar þjóðir eiga. Við vinnum enga olíu hér enn sem komið er. Við vinnum enga málma úr jörðu o.s.frv. en eigum þessa endurnýjanlegu orkugjafa sem við þurfum að nýta og verðum að nýta til heilla fyrir land og þjóð.

Það var mjög áhugavert um daginn þegar formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, dr. Pachauri, lagði það inn í umræðuna að hér ætti að efla stóriðjuframleiðslu vegna þess að einmitt það væri hagkvæmt fyrir þjóðir heims, fyrir mengunarmálin í heild sinni. Þetta er auðvitað hnattrænt vandamál og við verðum að horfa til þess á þeim nótum. Þar held ég að ég geti fullyrt að við erum í forustu og tek undir með dr. Pachauri í þeim efnum og ég held að við verðum að halda áfram á þeirri braut.

En varðandi spurninguna áðan þá skal ég styðja hæstv. umhverfisráðherra til allra góðra verka á þeim vettvangi og ég tel að það væri mikill ávinningur og mjög spennandi að Ísland tæki forustu á þeim vettvangi.