138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:15]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil nú í lok umræðunnar nota tækifærið til að þakka málshefjanda umræðuna sem hefur nánast tekið yfir allan skalann, ef svo má segja. Það má segja að það hafi nánast brostið á með töluvert málefnalegri umræðu á köflum. Það var þó kannski ekki megintónninn í umræðunni og var þarna á tímabili nánast eins og maður væri frekar kominn í fjölleikahús, slík voru boðaföllin. Þar fór, held ég, hæst hlandkopparæða hv. þm. Árna Johnsens.

Ég ætla ekki að tefja lengi við hana eða umræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um austantjaldsstjórnmálafræðibækurnar þar sem svo virtist sem hann teldi að umhverfismálin ættu heima. Þá veltir maður fyrir sér hvort hv. þm. Guðmundur Steingrímsson er áskrifandi að þeim austantjaldsstjórnmálafræðibókum. Það má kannski rifja það upp fyrir þingmanninn að árið 1990 þegar umhverfisráðuneytið varð til var einn helsti baráttumaður fyrir tilurð umhverfisráðuneytisins þáverandi formaður Framsóknarflokksins, Steingrímur Hermannsson, sem beitti sér fyrir stofnun ráðuneytisins. Það væri áhugavert að heyra hvort framsóknarmenn almennt hafi snúið frá þeirri áherslu með slíkum háðsglósum um málaflokkinn sem hér hrutu af vörum hv. þingmanns.

Almennt má segja að til umræðunnar sé stofnað af dálítið óvenjulegum ástæðum, þ.e. fyrst og fremst með þingsályktunartillögu um að hvetja ráðherra til að breyta fyrri ákvörðun. Ég ætla nú ekki að kvarta yfir þeirri stöðu en hún er sannarlega óvenjuleg og ég veit ekki til þess að þetta sé almennur háttur þingsins að fara í þingsályktunartillögur um einstakar ákvarðanir ráðherra. En það vekur umhugsun almennt um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og í raun og veru valdsvið ráðherra o.s.frv. en ég tel að sú umræða gæti bara orðið af hinu góða.

Ég get ekki neitað því að málflutningur flutningsmanna tillögunnar fór að sumu leyti dálítið út og suður því að hér var sá megintónn sleginn að ákvörðun mín eða úrskurður hefði ekkert með stjórnsýslu að gera. Voru það orð bæði hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur að þetta hefði ekkert með stjórnsýslu að gera en dvöldu þær samt töluvert við stjórnsýsluþáttinn. Ég get svo sem ítrekað það og áréttað það eina ferðina enn að það hlýtur að vera í lagi að beita heimildum til að skoða hluti betur. Það hlýtur að vera í lagi að setjast yfir umhverfismál og skoða þau aðeins betur. Það hlýtur að vera í lagi að setja umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið ofar en oft hefur verið gert áður. Það hlýtur að vera í lagi að taka tillit til þeirra sjónarmiða og hugsa úrskurði og ákvarðanir þeim sjónarmiðum í hag og með góða stjórnsýslu að leiðarljósi.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson talaði hér um að mikilvægt væri að gæta að því að allar ákvarðanir væru teknar að teknu tilliti til náttúruverndar. Ég get ekki neitað því að ég finn fyrir raunverulegum, einlægum og alvörugrænum tónum hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Ég ráðlegg þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að leggja við hlustir þegar þær áherslur koma fram sem eiga rætur sínar í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Sjálfbær þróun snýst um að allar ákvarðanir séu hugsaðar til langrar framtíðar. Við megum aldrei falla í þá freistni að gefa afslátt á þessum sjónarmiðum. Við megum aldrei falla í þá freistni að lifa bara í nútímanum, eins og virðulegur þm. Árni Johnsen orðaði það hér áðan. Hann gekk meira að segja svo langt í títtnefndri hlandkopparæðu að tala um að við værum hér úr takti við allt sem eðlilegt er og værum aukinheldur gamaldags, og þykir mér þá týra ef þingmaðurinn Árni Johnsen er farinn að kenna okkur nútímaleg vinnubrögð og nútímalega orðræðu. Látum það liggja á milli hluta.

Festa í stjórnsýslunni er mikilvæg, sagði hv. þm. Illugi Gunnarsson. Mikið rétt, við eigum að nota tækifærin. Við eigum að nýta tækifærin í náttúruauðlindum og í þekkingunni, hárrétt, en við eigum að gefa okkur þann tíma sem þarf til að kanna málin til hlítar, líka undir pressu, líka þegar við erum undir álagi, líka þegar kröfurnar eru æpandi. Einmitt þá þurfum við að gera kröfur fyrir komandi kynslóðir og fyrir umhverfissjónarmiðin.

Það var allt og sumt sem umhverfisráðherrann var að gera. Árið 1990, sem ég vitnaði í hér áður, þegar ráðuneyti umhverfismála varð til var hér í þessum sal málþóf. Það var málþóf, það var talað og talað. Af hverju skyldi það nú hafa verið, virðulegi forseti? Það var vegna þess að sjálfstæðismenn voru á móti því að stofna umhverfisráðuneyti, þeir vildu ekki umhverfisráðuneyti. Þeir töldu það óþarfa, þeir töldu það óskynsamlegt og þeir töldu að þau málefni sem hugsanlega væru á borðum nýs umhverfisráðuneytis væru betur geymd annars staðar. Þetta væri bara bruðl, þetta væri bara tóm vitleysa. Við þá umræðu hafa væntanlega tekið þátt einhverjir þeirra þingmanna sem hér hafa verið í umræðunni í dag og í kvöld, eða hugsanlega verið viðstaddir, hugsanlega virðulegur þm. Pétur Blöndal og hv. þm. Árni Johnsen, ég veit það ekki. Það er eitthvað fyrir áhugamenn hér í salnum um sagnfræði. En það er áhugavert að hugsa um að málaflokkur umhverfismála er svo nýr á Íslandi, í raunverulegi pólitískri umræðu að hann á enn þá undir högg að sækja. Hann þarf einfaldlega enn þá að verja tilveru sína. Hann þarf einfaldlega enn þá að segja: Hér eru umhverfissjónarmið og þau vega þungt.

Það er mitt verkefni í umhverfisráðuneytinu að halda fram hagsmunum umhverfis, náttúru og komandi kynslóða. Það eru ekki nákvæmlega þeir hagsmunir sem eru háværastir núna í auglýsingatímum Ríkisútvarpsins, það eru aðrir hagsmunir, en ég er ekki í stjórnmálum til þess að tala máli þeirra hagsmuna heldur hagsmuna framtíðarinnar. Það kann að vera að það virki eins og ég sé haldin einhverjum stórmennskukomplexum, eins og hér var vikið að áðan, en hv. þm. Pétur Blöndal gekk enn þá lengra en ég hef gengið því að hann var kominn í árþúsundir í sinni miklu framsýni, sem er hið besta mál.

Ég vil hér að lokum, hæstv. forseti, þakka fyrir góða umræðu. Og þegar við tölum um að snúa þessu bara við hér í þinginu, að það sé pólitískur óstöðugleiki sem erlendir aðilar sjá, get ég ekki neitað því að ég finn fyrir innblásnum predikurum frekar en raunverulegum umræðum. Ég vil samt halda því til haga að það eru raunverulegar áhyggjur sem þingmenn Suðurkjördæmis hafa af atvinnuástandinu á Suðurnesjum. Ég ber virðingu fyrir þeirri baráttu sem þeir þingmenn heyja í þágu íbúa á Suðurnesjum. En sú barátta þarf að vera arm í arm og hönd í hönd með málefnum og með sýn umhverfis, náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar.