138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:38]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að nefna eitt atriði sem kom fram í annars ágætri yfirferð hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, það er þessi umræða um að úrskurðurinn verði ólögmætur við að fara fram yfir frest. Það er ekki svo að það ógildi úrskurð að fara fram yfir frest. Ef maður veltir vöngum yfir því, og ég bið þingmanninn að gera það, ef úrskurður umhverfisráðherra hefði fallið hennar skoðun í vil, hefði hann þá ekki verið ógildur?

Það er staðreynd að þetta gerist of oft í íslenskri stjórnsýslu. Það gerist of oft að við förum fram yfir fresti. Það er vegna þess að að sumu leyti eru þeir ekki nógu rúmir. Það þarf að kalla eftir gríðarlegu magni upplýsinga og umsagna. Þetta hefur verið sérstaklega mikið vandamál í sumum úrskurðum í umhverfisráðuneytinu og það er til sérstakrar skoðunar. En ég vil bara vísa þessu á bug og ég verð að segja að mér gremst það að stjórnarþingmenn og þeir sem fara með þessa umræðu, hvort sem það eru fulltrúar Samtaka atvinnulífsins eða annarra aðila í þessari umræðu, skuli hamra á því að úrskurðurinn sé ólögmætur. Getum við ekki rætt efnisatriði máls en ekki að hamra á einhverju sem stenst enga skoðun? Ég leiðrétti það þá vonandi hér í eitt skipti fyrir öll að það að fara fram yfir frest ógildir ekki úrskurð, ekki þennan frekar en annan og því hlýtur þingmaðurinn að átta sig á.