138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi óska ég þess í ljósi þeirrar umræðu sem hv. þm. Birgir Ármannsson bryddaði upp á að þeir þingmenn sem hugsa nú sinn gang, velta fyrir sér að skipta um skoðun jafnvel í þessu stóra Icesave-máli, hugsi sig mjög vandlega um, hvort málið sé raunverulega betra eða hvort það hafi breyst á þann veg að kalli á skoðanaskipti á hvorn veginn sem það er.

Það sem mig langar að koma inn á er umræðan um persónukjör. Málið er í sjálfu sér mjög gott, ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi umræða fari fram og að málið fari á endanum í gegnum þingið. Það þarf hins vegar að vanda það mjög vel, það þarf að vanda alla umræðu um þetta og það þarf líka að standa þannig að málinu að vel sé hægt að koma því í framkvæmd og með eðlilegum fyrirvara. Mín skoðun er sú að það eigi að taka af skarið með að segja að það sé of stuttur tími til að láta á þetta reyna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Ég veit nefnilega líka að mjög margar sveitarstjórnir hafa miklar áhyggjur af því hvernig eigi að útfæra þetta á þeim tíma sem er til stefnu. Ég segi ekki að þetta mál eigi ekki að ná fram að ganga en ég held að það sé illa gert gagnvart sveitarstjórnarstiginu í raun að gera þessa tilraun á því núna. Ef menn koma með útfærða lausn sem hægt er að vinna á stuttum tíma skoðum við það auðvitað en ég held að sé hreinlegra og betra fyrir alla að segja að málið haldi áfram innan þingsins, það verði sett lög og reglur um það hvernig eigi að standa að persónukjöri og síðan verði látið á það reyna hvernig virknin og annað er á réttum tíma. Við skulum ekki gera þetta í einhverjum flaustursskap.