138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:03]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra með tilliti til stöðu landsbyggðarinnar í dag við uppgjör mála í samfélaginu, við afgreiðslu fjárlaga o.fl.

Hæstv. ríkisstjórnin hjakkar á landsbyggðinni og er að setja ryksugukerfi til að fækka þar stjórnunarstöðum og flytja þær á höfuðborgarsvæðið. Það er óvirðing við landsbyggðina. Það er óskynsamlegt fyrir kerfi landsins. Það var aldrei neitt góðæri á landsbyggðinni eins og talað hefur verið um í okkar ástkæru höfuðborg en þar unnu menn úr spilunum eftir aðstæðum. Það er siglt í gerð fjárlaga með því að stórlækka styrki til rannsóknarstofa og náttúrustofa á landsbyggðinni. Það er vélað um að flytja sýslumenn, fækka þeim á landsbyggðinni, skattstjórum, héraðsdómurum og lögreglustjórn. Þetta er allt óvirðing við landsbyggðina sem vinnur daga og nætur, fast og ákveðið, að gjaldeyrisöflun fyrir þjóðina.

Kvótafyrningu er hótað sem mundi setja allt starf á landsbyggðinni í uppnám. Landsbyggðin aflar 90% þeirra tekna sem við höfum af sjávarútvegi á Íslandi. Tekjur af sjávarútvegi í útflutningi á síðasta ári voru 170 milljarðar kr. 90% af því koma frá landsbyggðinni. Þetta er burðarásinn í því sem við byggjum velferðarkerfi okkar á, hvort sem er heilsugæslukerfi, menntakerfi eða annað. Það gengur ekki að ganga að mjólkurkúnni og blóðmjólka hana. Það gengur ekki. Það gengur ekki að keyra á það fólk sem hefur barist í bökkum árum saman, haldið sjó og unnið skynsamlega úr. Það er ekki skynsamlegt fyrir þjóðfélagið og gerir ekkert annað en að draga úr tekjum.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt til kvótaaukningu með fullum rökum, nokkra tugi þúsunda tonna, sem mundu skapa yfir 30 milljarða í gjaldeyristekjur. Við skulum sjá hvað setur. Á landsbyggðinni er líka urmull af smáum verkefnum sem eru stór í hverju byggðarlagi. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hyggist afgreiða það eins og gert hefur verið, í stíl við það sem gert hefur verið undanfarin ár. Smá verkefni kosta lítið, en skipta ákaflega miklu máli.

Flutningskostnaður hefur stóraukist á landsbyggðinni með hækkun olíugjalds. Einn stærsti liðurinn í rekstri heimilanna og fyrirtækjanna er flutningskostnaður, með matföng og vörur til og frá byggðarlögum landsins. Þetta er kostnaður fyrir landsbyggðina langt umfram aðrar byggðir landsins. Það þarf að horfast í augu við þetta og bregðast við því, hæstv. fjármálaráðherra.

Skipstjórnarmenntun er í uppnámi. Það varðar framtíðina okkar. Innan 10 ára má reikna með að kannski Kínverjar eða Spánverjar verði skipstjórar á íslenskum skipum ef svo fer fram sem horfir. Það er ekki góð þróun. Við þurfum að vinna fast og ákveðið að styrkingu landsbyggðarinnar því að sú styrking skapar miklu sterkari grundvöll fyrir íslenskt samfélag í heild, ekki síst þegar illa árar.

Það má nefna aðför ríkisstjórnarinnar að orkunýtingunni, orkuauðlindunum, þar sem menn hafa dregið lappirnar endalaust. Ég vík kannski að því síðar í umræðunni, en þetta hefur tafið og skemmt framgang og möguleika á þúsundum starfa á Íslandi, þar af fyrir stórum hluta á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysið er mest. 1.700 atvinnulausir, en ríkisstjórnin dregur lappirnar í nánast öllum þáttum, hvort sem það er Helguvík, heilsusjúkrahús, Keilir, gagnaver eða annað sem er upp á teningnum til að auka möguleika í uppbyggingu í landinu. Þetta er mikið áhyggjuefni og (Forseti hringir.) ég vona að hæstv. fjármálaráðherra sé sammála mér í því.