138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það ríkir mikill sóknarhugur víða á landsbyggðinni þrátt fyrir efnahagshrunið. Það heyrðum við þingmenn Norðvesturkjördæmis á fundi með sveitarstjórnarmönnum frá sunnanverðum Vestfjörðum hér í hádeginu. Þær atvinnugreinar sem bera að stærstum hluta uppi gjaldeyriskaupin í landinu eru líka þær stoðir sem bera uppi atvinnulíf á landsbyggðinni. Sjávarútvegur og ferðaþjónusta hafa verið að sækja í sig veðrið og markaðsátak í kynningu á Íslandi er í gangi varðandi haust- og vetrarferðir. Strandveiðarnar sl. sumar skiluðu sjávarbyggðunum ávinningi og auknum tekjum og tekjur hafnanna urðu umtalsvert meiri. Sóknarfæri liggja víða en óvissan í efnahagsmálum hefur vissulega dregið úr framkvæmdum og fjármögnun er erfið víða. Nú sér fyrir endann á endurfjármögnun bankanna og Icesave-málinu er að ljúka. Vextir fara að lækka og fjárfestingar fara af stað, ég hef fulla trú á því.

Frumkvöðlar og skapandi hugsun hjá fjölda sprotafyrirtækja sýna að margt jákvætt getur sprottið hér í kreppunni. Á landsbyggðinni hafa verið að byggjast upp öflug þekkingarsetur þar sem lögð hefur verið áhersla á menntun, rannsóknir og nýsköpun. Þegar draga þarf saman í rekstri ríkisins um 180 milljarða næstu þrjú árin, segir það sig sjálft að það verður sársaukafullt. Þá verður að taka tillit til þeirra landsvæða sem búið hafa við neikvæðan hagvöxt í fjölda ára þegar þensla stóð sem hæst hér á suðvesturhorninu. Öll uppbygging innviða samfélagsins og grunnþjónusta er viðkvæm víða á landsbyggðinni, hvert starf vegur þungt og það hefur mikið verið haft fyrir að fá opinber störf á landsbyggðina og auka þarf menntunarframboð. Sá niðurskurður sem blasir við þjóðinni er afleiðing óheftrar frjálshyggju síðustu árin. Hún má ekki verða til þess að landsbyggðin missi vopn sín. Það verður mikið undir því komið (Forseti hringir.) hvernig landsbyggðin spjarar sig næstu árin hversu hratt við komumst út úr kreppunni. Það skulum við hafa í huga.